Áætlunarflug til 57 borga í júní

london oxfordstraeti

Farþegar á Keflavíkurflugvelli gátu flogið beint til 57 borga í Evrópu og N-Ameríku í síðasta mánuði. Í sumum tilvikum eru ferðirnar þó sárafáar á hvern stað. Farþegar á Keflavíkurflugvelli gátu flogið beint til 57 borga í Evrópu og N-Ameríku í síðasta mánuði. Í sumum tilvikum eru ferðirnar þó sárafáar á hvern stað.
Valkostum íslenskra flugfarþega fer sífellt fjölgandi því nýir staðir bætast við leiðakerfi flugfélaganna og ferðunum á þá vinsælustu fjölgar. Í júní síðastliðnum var boðið upp á áætlunarflug til 57 borga en þær voru 51 í júní í fyrra samkvæmt talningu Túrista. Alls voru áætlunarferðirnar 1836 talsins eða um sextíu á dag. Það er fimmtungs aukning frá sama tíma á síðasta ári.

Bandarískar borgir færast ofar

Sem fyrr eru ferðirnar flestar til London og Kaupmannahafnar en bandarísku borgirnar New York, Boston og Washington fara hærra á listann. Munar þar mestu um að WOW air hefur hafið áætlunarflug til þeirra tveggja síðarnefndu og Delta flýgur einnig oftar til New York en áður.
Berlín kemst í fyrsta sinn inn á lista yfir þær 10 borgir sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og ástæðan er sú að þýsku flugfélögin Airberlin og German Wings fljúga nú þangað í samkeppni við WOW air.

Þær borgir sem oftast var flogið til í júní

1. London: 8,4% allra brottfara
2. Kaupmannahöfn: 8,2% allra brottfara
3. París 6,6% allra brottfara
4. New York: 6,5% allra brottfara
5. Boston: 6,2% allra brottfara
6. Ósló: 5,6% allra brottfara
7. Amsterdam: 4,3% allra brottfara
8.-9. Washington: 3,5% allra brottfara
8.-9. Stokkhólmur: 3,5% allra brottfara
10. Frankfurt: 2,9% allra brottfara
10. Berlín: 2,9% allra brottfara