Áætla að fljúga einu sinni í viku milli London og Egilsstaða

egilsstadaflugvollur

Breska ferðaskrifstofan Discover the World áformar að bjóða upp á reglulegar ferðir frá Gatwick flugvelli til Egilsstaða á næsta ári. Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar segir mikilvægt að heimamenn fyrir austan nýti sér þessa nýju flugleið. Breska ferðaskrifstofan Discover the World áformar að bjóða upp á reglulegar ferðir frá Gatwick flugvelli til Egilsstaða á næsta ári. Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar segir mikilvægt að heimamenn fyrir austan nýti sér þessa nýju flugleið.
Allt næsta sumar munu íbúar á Austurlandi og víðar geta flogið beint frá Egilsstöðum til höfuðborgar Bretlands ef áætlanir forsvarsmanna ferðaskrifstofunnar Discover the World ganga eftir. Gert er ráð fyrir að flogið verði alla sunnudaga frá 22. maí og fram til 2. október og segir Clive Stacey, framkvæmdastjóri og eigandi Discover the World, það vera nauðsynlegt fyrir framgang verkefnisins að Austfirðingar og aðrir Íslendingar nýti sér þessar nýju áætlunarferðir. Ráðgert er að fljúga til Egilsstaða frá London Gatwick flugvelli sem er næst stærsti flugvöllur Bretlands og þaðan geta farþegar frá Íslandi því flogið áfram út um allan heim. Farmiðaverð liggur ekki fyrir en Stacey segir að það verði raunhæft.

Fljúga fólki beint út í náttúruna

Discover the World hefur í tugi ára verið mjög umsvifamikil í skipulagningu Íslandsferða og með beinu flugi til Austurlands segir Stacey að hægt verði að bjóða Bretum upp á ferðir beint út í íslenska náttúru en hún sé einmitt helsta aðdráttarafl landsins. Hann telur að flugið til Egilsstaða muni stækka markaðinn fyrir ferðalög til Íslands en ekki taka af því sem fyrir er. 

Veita styrki til fleiri ára

Eins og kom fram í frétt Túrista í byrjun mánaðar þá er líklegt að stýrihópur forsætisráðuneytisins, um eflingu flugs frá Akureyri og Egilsstöðum, leggi til að hið opinbera styrki millilandaflug frá þessum tveimur stöðum með því að fella niður flugvallargjöld og veita markaðsstyrki til fleiri ára. Stýrihópurinn skilar áliti sínu í byrjun september. Hins vegar er áætlað er að ljúka undirbúningi á áætlunarflugi Discover the World til Egilsstaða í lok þessa mánaðar. Ferðaskrifstofan er ekki með áform um flug til Akureyrar.