Bókum oftar sólarlandaferðir rétt fyrir brottför

nazar sundlaug

Ferðaskrifstofan Nazar býður upp á sólarlandaferðir frá öllum Norðurlöndunum og í höfuðstöðvum fyrirtækisins er eftir því tekið hvað Íslendingar eru til í að kaupa ferðir með stuttum fyrirvara. Ferðaskrifstofan Nazar býður upp á sólarlandaferðir frá öllum Norðurlöndunum og í höfuðstöðvum fyrirtækisins er eftir því tekið hvað Íslendingar eru til í að kaupa ferðir með stuttum fyrirvara. 
Júní var kaldur hér á landi og á hinum Norðurlöndunum hefur sumarið verið vætusamt fram að þessu. Þegar þannig viðrar eykst eftirspurn eftir sólarlandaferðum því þá vilja fleiri verja fríinu á suðrænum slóðum. Sumir bóka jafnvel ferðirnar stuttu fyrir brottför og það á sérstaklega við hér á landi. Það er alla vega reynsla starfsmanna ferðaskrifstofunnar Nazar sem býður upp á Tyrklandsreisur frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi.

Keyptu miða þremur tímum fyrir flugtak

„Það hefur komið skandinavísku samstarfsfólki mínu á óvart hversu seint sumir Íslendingar bóka ferðirnar. Þegar við eigum nokkur sæti laus, einum eða tveimur dögum fyrir brottför, reiknum við ekki endilega með því að þau seljist. Nema kannski á Íslandi því það kemur fyrir að síðustu sætin þaðan bókist daginn fyrir brottför eða jafnvel samdægurs“, segir Kristín Lind Andrésdóttir, markaðsstjóri Nazar. „Það eru meira að segja dæmi um að fólk hafi pantað ferð allt að þremur tímum fyrir brottför en þá nær það nú bara rétt að henda sundbuxunum í bakpoka og bruna út á völl.“

Flestir tímanlega í því

Eins og áður segir er Nazar með starfsemi á öllum fimm Norðurlöndunum og fá starfsmenn ferðaskrifstofurnar því góða sýn á mismunandi kaupheðgun frændþjóðanna. Kristín segir áhersluna hjá Nazar vera á fjölskyldufrí og þess háttar ferðir bóki flestir mörgum mánuðum og jafnvel ári fyrir brottför. Íslenskir ferðalangar eru þar engin undantekning og segir Kristín að þrátt fyrir þann hóp Íslendinga sem stökkvi út með stuttum fyrirvara þá hafi í ár mun fleira fjölskyldufólk fest sér ferðir sumarsins með lengri fyrirvara en tíðkaðist í fyrra. En það var fyrsta starfsár Nazar hér á landi.