Erfiðara að eiga við farþegaaukninguna en gert var ráð fyrir

kef turisti

Mjög langar biðraðir mynduðust í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær og seinka þurfti öllum morgunflugum Icelandair. Mjög langar biðraðir mynduðust í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær og seinka þurfti öllum morgunflugum Icelandair. Forsvarsmenn Isavia búast við miklu álagi í júlí og biðja farþega um að mæta tímanlega í flug.
Það var fullt út úr dyrum í innritunarsal Keflavíkurflugvallar í gærmorgun og stór hluti farþega Icelandair þurfti að bíða í um klukkustund eftir því að geta innritað sig og skila farangri. Í framhaldinu tók við tæplega hálftíma bið við vopnaleitina og náði röðin við öryggishliðin niður í innritunarsalinn. Seinka þurfti öllum sautján morgunflugum Icelandair um hálftíma til klukkutíma vegna seinagangsins sem skrifast meðal annars á manneklu í vopnaleit. 

Pirraðir farþegar

Meðal farþega á Keflavíkurflugvelli í gær var Túristi og það var greinilegt að langar raðir við innritunarborðin komu fólki í opna skjöldu. Margir áttuðu sig til að mynda ekki á því hvar biðraðirnar byrjuðu og fóru því inn í þær miðjar sem olli miklum pirringi hjá þeim sem stóðu aftar. Þegar nær dró brottför urðu farþegar stressaðir og vildu komast framar í raðirnar til að ná um borð fyrir flugtak. Athygli vakti að tvö af öryggishliðum flugvallarins voru ekki í notkun þrátt fyrir langar biðraðir. Aðspurður um þetta ástand segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, að farþegaaukningin á Keflavíkurflugvelli sé meiri en gert hafi verið ráð fyrir og erfiðara sé að ráða við hana en talið var. „Við höfum í sumar þurft að bæta við okkur mjög mikið af starfsfólki, eins og í raun allir rekstraraðilar á flugvellinum. Það hefur verið erfitt að fá fólk og auk þess gerði mannaflaspáin okkar ekki ráð fyrir svona miklu álagi. Það tekur langan tíma að þjálfa fólk upp svo það tekur tíma að bregðast við þessu.“ Guðni bendir einnig á að innleiðing nýs búnaðar við öryggishlið hafi gengið hægar en búist var við.

Betra að mæta snemma 

Unnið er að því að stækka farþegasvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en Guðni segir það vera mikið verk sem taki tíma. „Ljóst er að júlímánuður verður erfiður hjá okkur og það má búast við flöskuhálsum á álagstímum á morgnana og seinnipartinn. Við hvetjum farþega til að koma snemma og við munum í sumar byrja innritun fyrr til þess að dreifa álaginu á þessum álagstoppum betur.“ Farþegar sem eiga að fljúga frá landinu milli klukkan sex og átta á morgnana, frá þrjú til fimm seinnipartinn eða um miðnætti eru hvattir til að koma út á völl að minnsta kosti þremur tímum fyrir brottför.

Fara rækilega yfir málin

Eins og áður segir voru það farþegar Icelandair sem urðu að sætta sig við langar raðir í gærmorgun og seinkun á ferðum. „Það sem olli töfum þennan morgun voru einkum bilanir í töskufæribandi flugvallarins, sem hafði ekki undan og tafði innritun, auk þess sem vopnaleitin var undirmönnuð. Innritun gengur alla jafna nokkuð hratt og vel, en bilanir eins og þessar hægja á öllu ferlinu, lengja biðraðir og seinka flugi. Þegar svona aðstæður skapast er farið rækilega yfir málin af öllum sem bera ábyrgð, og allt reynt að gera til að bæta úr,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurður um atburði gærdagsins.
Þess má geta að í morgun hélt áætlun Keflavíkurflugvallar í nær öllum tilvikum enda vanalega færri á ferðinni á mánudögum en á sunnudögum.