Hvetja farþega til að mæta tímanlega í flug

flugstod 860

Þeir sem eiga bókað flug frá landinu næstu vikur eru beðnir um að mæta allt að þremur tímum fyrir brottför til að minnka líkurnar á löngum biðröðum. Þeir sem eiga bókað flug frá landinu næstu vikur eru beðnir um að mæta allt að þremur tímum fyrir brottför til að minnka líkurnar á löngum biðröðum. Dæmi eru um að fólk hafi beðið í klukkutíma við vopnaleitina.
Þó ráðist hafi verið í endurbætur á innritunarsal, farangurskerfi og vopnaleit Keflavíkurflugvallar síðustu misseri þá hafa myndast langar raðir í flugstöðinni síðustu daga og vikur. Sérstaklega á morgnana, seinnipartinn og fyrir miðnætti þegar umferð um völlinn nær hámarki. Helsta ástæðan fyrir þessu ástandi er sú að farþegaaukningin í flugstöðinni hefur verið meiri en gert var ráð fyrir og erfitt hefur reynst að ráða við hana líkt og kom fram í frétt Túrista í byrjun vikunnar.
Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar hvetja því flugfarþega til að mæta tveimur og hálfum til þremur tímum fyrir brottför næstu vikur til að stytta biðraðirnar.

Allt að klukkutíma bið við öryggisleit

Uppsetning á nýjum öryggisleitarlínum við vopnaleitina hafa tekið lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir og af þeim sökum hafa myndast mjög langar raðir við öryggishliðin. Að sögn Guðna Sigurðssonar, talsmanns Isavia, eru dæmi um að fólk hafi þurft að bíða í um klukkutíma eftir vopnaleit en í flestum tilfellum hefur hámarksbiðin verið hálftími. Samkvæmt tilkynningu þá vinnur starfsfólk Isavia hörðum höndum að því að bæta ástandið en farþegar eru engu að síður beðnir um að koma tímanlega út á völl nú í sumar þegar farþegafjöldinn er mestur.  
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia þá er álagið í vopnaleitinni mest á morgnanna milli sex og hálfátta og milli níu og ellefu, seinnipartinn milli þrjú og hálf fimm og svo frá 22:30 til miðnættis. Fimmtudagar, föstudagar og sunnudagar eru þeir dagar sem flestir eru á ferðinni.