Áfram fjölgar Icelandair ferðunum til Seattle

seattle 860

Fyrir sex árum síðan hóf Icelandair flug til fjölmennustu borgarinnar í norðvesturhluta Bandaríkjanna og næsta sumar verða ferðirnar 11 í viku. Fyrir sex árum síðan hóf Icelandair flug til fjölmennustu borgarinnar í norðvesturhluta Bandaríkjanna og næsta sumar verða ferðirnar 11 í viku. Stærsta flugfélag Norðurlanda gafst hins vegar upp á flugi til borgarinnar.
Í febrúar árið 2009 tilkynnti SAS að áætlunarflug félagsins til Seattle yrði lagt niður þá um sumarið og þar með bundinn endi á 42 ára veru skandinavíska flugfélagsins í borginni. Fimm vikum síðar, í lok mars, hóf Icelandair sölu á farmiðum til Seattle en þá voru aðeins nokkrir mánuðir liðnir frá íslenska efnahagshruninu og óvissa ríkti um fjárhagslegan styrk og eignarhald Icelandair. Bágborin fjárhagsstaða SAS var einmitt sögð helsta ástæðan fyrir því að félagið lagði niður flugleiðina til Seattle skömmu áður. Stjórnendur Icelandair hafa því teflt djarft þegar ákvöðun var tekin um að fylla skarð SAS í Seattle á þessum tímapunkti.

Umsvifamikið á litlu svæði

Jómfrúarferð Icelandair til Seattle var farin fjórum mánuðum eftir að sala á sætum hófst og til að byrja með var boðið upp á fjögur flug í viku. Ferðunum hefur fjölgað jafnt og þétt og nú í sumar eru þær t.a.m. tvöfalt fleiri. Í byrjun þessa mánaðar var svo tilkynnt að næsta sumar myndu vélar Icelandair fljúga vikulega ellefu ferðir frá Keflavík til Seattle. Til samanburðar má nefna að SAS flaug aðeins sex ferðir í viku til Seattle þegar mest lét. Það er því ljóst að stjórnendur Icelandair hafa veðjað á réttan hest á sínum tíma og þeir sjá greinilega frekari sóknarfæri á svæðinu því síðastliðið rúmt ár hefur Icelandair einnig bætt nágrannaborgunum Portland og Vancouver við leiðakerfi sitt. Næsta sumar stefnir til að mynda í að vélar félagsins fljúgi samtals 16 ferðir í viku til borganna þriggja. Reyndar mætti segja að Edmonton, einn áfangastaða Icelandair í Kanada, teljist einnig til þessa hluta álfunnar en þangað flýgur Icelandair allt að fimm sinnum í viku.
Þess má geta að nú í vor íhuguðu forsvarsmenn SAS að taka upp þráðinn og hefja flug á ný til Seattle en samkvæmt nýjustu fréttum hafa þeir ákveðið að einbeita sér að öðrum áfangastöðum og er talið íklegt að Boston verði einn þeirra. Þar með yrðu Icelandair og WOW air ekki lengur einu norrænu flugfélögin þar í borg.
TENGDAR GREINAR: Vegvísir SeattleÍ borg þeirra hugmyndaríkuSoltinn í Seattle