Icelandair og WOW sýndu Egilsstaðafluginu ekki áhuga

egilsstadaflugvollur

Ferðaskrifstofan Discover the World áformar ekki aðeins að fljúga milli London og Egilsstaða næsta sumar og haust heldur einnig í febrúar og mars. Íslensku flugfélögin höfðu ekki áhuga á samstarfi. Ferðaskrifstofan Discover the World áformar ekki aðeins að fljúga milli London og Egilsstaða næsta sumar og haust heldur einnig í febrúar og mars. Mikilvægt er að heimamenn fyrir austan nýti sér áætlunarferðirnar segir framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar. Íslensku flugfélögin höfðu ekki áhuga á samstarfi um flugið.
Ef áætlanir ferðaskrifstofunnar Discover the World ganga eftir mun 180 sæta Airbus þota fljúga einu sinni í viku frá London til Egilsstaða allt næsta sumar og fram til 2. október. Í febrúar og mars árið 2017 verða ferðirnar tvær í viku. Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar vilja með þessu bjóða Bretum upp á beint flug út í íslenska náttúru líkt og kom fram í frétt Túrista fyrir helgi. Ráðgert er að fjúga til Egilsstaða frá Gatwick flugvelli í London og verður þetta í fyrsta skipti sem Discover the World býður upp á eigin flugferðir hingað til lands í 31. árs sögu fyrirtækisins. Clive Stacey, eigandi ferðaskrifstofunnar, segist hafa óskað eftir samstarfi við bæði Icelandair og WOW air um flugið en ekkert hafi ekkert komið út úr því. „Við erum því að gera þetta sjálf þar sem enginn annar hefur áhuga,“ segir Stacey.

Stuðningur heimamanna mikilvægur

Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins vinnur nú að tillögum um hvernig megi efla millilandaflug frá Akureyri og Egilsstöðum og að sögn Matthíasar Imsland, formanns stýrihópsins, kemur til álita að styðja við þess háttar flug með niðurfellingu á flugvallargjöldum og veitingu markaðsstyrkja. Þess háttar stuðningur er mikilvægur að mati Stacey eigi áætlunarflugið til Egilsstaða að vera gróðavænlegt. Hann segir að áformin um flugið verði ekki að veruleika nema opinberar stofnanir, fyrirtæki og ferðaþjónustan á Austurlandi styðji við það. Stacey tekur fram að verkefnið hafi hlotið góðar undirtektir hjá íbúum og stofnunum fyrir austan og það sé ástæðan fyrir því að undirbúningur sé kominn langt á veg. Auk viðræðna við hótel og ferðaþjónustuaðila hafa forsvarsmenn Discovcer the World nálgast fyrirtæki og stéttarfélög á Austurlandi í von um að þau skuldbindi sig til að kaupa ákveðin fjölda flugsæta. „…við trúum því að þetta verði eins mikil tímamót fyrir íbúa á Austurlandi og það verður fyrir viðskiptavini okkar,“ bætir Stacey við. Hann segir mikilvægt að fá botn í þessar viðræður til að geta farið lengra með verkefnið.