Miklu færri ferðamenn í Ísrael

telavia

Ferðaþjónustan í Ísrael er í krísu því ferðamönnum á vinsælum áfangastöðum hefur fækkað um allt að helming síðust misseri. Ferðaþjónustan í Ísrael er í krísu því ferðamönnum á vinsælum áfangastöðum hefur fækkað um allt að helming síðust misseri.
Þær eru ekki margar jákvæðu fréttirnar sem berast frá Ísrael og í því ljósi er það kannski skiljanlegt að færri ferðamenn leggi leið sína til landsins nú en áður. Og samkvæmt nýjustu tölum frá samtökum ísraelskra hóteleigenda hefur fækkunin verið umtalsverð því gistinóttum erlendra ferðamanna í landinu fækkaði um fjórðung síðustu tólf mánuði. Mestur var samdrátturinn í hinum vinsæla strandbæ Eilat þar sem helmingi færri hótelherbergi voru skipuð síðustu mánuði en á sama tíma í fyrra. Í Jerúsalem og Nasaret fækkaði hótelgestum um 30 prósent og í Haifa og Tel Aviv voru þeir fimmtán prósent færri. 

Rússar heima en Skandinavar á ferðinni

Veikt gengi rússnesku rúblunnar er talin vera ein helsta skýringin á þessum mikla samdrætti því nú hafa færri Rússar efni á að ferðast til útlanda. En samkvæmt frétt Berlingske í Danmörku þá hefur skandinavískum ferðamönnum í Ísrael fjölgað töluvert undanfarið og mest hefur aukningin verið í fjölda danskra ferðamanna því þeim fjölgaði um nærri fimmtung síðastliðið ár.