Áfram fækkar norrænum ferðamönnum

erlendir ferdamenn

Fjórðungi fleiri ferðamenn voru hér á landi í júlí miðað við sama tíma í fyrra en töluverður samdráttur hefur orðið í heimsóknum frá frændþjóðunum. Fjórðungi fleiri ferðamenn voru hér á landi í júlí en töluverður samdráttur hefur orðið í heimsóknum frá frændþjóðunum.
Það sem af er sumri hefur túristum frá hinum Norðurlöndunum fækkað um 3.528 eða átta prósent. Á sama tíma fjölgaði ferðamönnum hér á landi í heildina um fjórðung samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli.

Fimmtungi færri Finnar

Í júní fækkaði Dönum, Svíum og Norðmönnum á bilinu 10 til 17 prósent en í júlí varð mestur samdráttur í komum Finna því fimmtungi færri komu þaðan en á sama tíma í fyrra. Áfram fækkaði Norðmönnum um tíund en Svíar og Danir drógu minna úr Íslandsferðum í síðasta mánuði en þeir gerðu í byrjun sumars.

Fjölgun flugferða til Norðurlanda

Í júní og júlí var samtals flogið 892 sinnum héðan til hinna Norðurlandanna sem er aukning um 68 ferðir frá því í fyrra samkvæmt talningum Túrista á flugumferð um Keflavíkurflugvöll. Framboð á flugi milli Íslands og hinna Norðurlandanna hefur því aukist um rúm átta prósent í sumar en á sama tímabili hefur ferðamönnum frá frændþjóðunum fjórum fækkað hlutfallslega jafn mikið.