Áframhaldandi breytingar innan WOW air

Birgir Jónsson sem verið hefur aðstoðarforstjóri flugfélagsins WOW air sl. 10 mánuði lætur af störfum hjá flugfélaginu á næstunni. Hann tók við sem ábyrgðamaður flugrekstrarleyfi WOW í vor þó hann væri ráðinn tímabundið.

wowair freyja

Í nóvember sl. var Birgir Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Iceland Express, ráðinn sem aðstoðarforstjóri WOW air. Þegar tilkynnt var um ráðninguna kom fram að hann hefði sinnt ráðgjafavinnu fyrir fyrirtækið en tæki nú við starfi aðstoðarforstjóra. Ekki kom fram að ráðningin hafi verið tímabundin en samkvæmt tilkynningu sem WOW air sendi frá sér í morgun þá er árssamningi Birgis nú að ljúka og hann lætur því að störfum.

Líka framkvæmdastjóri flugrekstrar

Birgir hefur ekki aðeins verið aðstoðarforstjóri WOW heldur jafnframt framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air og ábyrgðamaður flugrekstrarleyfis félagsins. Við þeirri stöðu tók hann í vor þegar Björn Ingi Knútsson lét af störfum hjá WOW air. Birgir var s.s. gerður ábyrgðamaður flugrekstrarleyfisins þrátt fyrir að vera aðeins í tímabundinni stöðu hjá WOW air. Samkvæmt reglugerð þá má aðeins sá einstaklingur sinna stöðunni sem flugmálayfirvöld fallast á og sýnt er fram á að sá hafi umboð fyrirtækisins til að tryggja fjármagn til rekstrar og viðhalds eins og það er orðað reglugerð.

Sigurður Magnús Sigurðsson hefur nú verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air en hann starfaði áður hjá flugfélaginu Atlanta. Sigurður verður þar með þriðji ábyrgðamaður flugrekstrarleyfis WOW air í ár.

Túristi hefur frá því morgun reynt að ná tali af forstjóra og upplýsingafulltrúa WOW air til að fá brotthvarf Birgis staðfest. Félagið sendi svo frá sér fréttatilkynningu um ellefu leytið þar sem fram kom að Birgir myndi láta af störfum og Sigurður hefði verið ráðinn. Í framhaldi spurði Túristi forsvarsmenn WOW air nokkurra spurninga um þessar breytingar, t.d. hver taki við verkefnum aðstoðarforstjóra og hvort tíðar breytingar í stjórnendahópi WOW valdi áhyggjum. Engin svör hafa borist þrátt fyrir ítrekanir.