Bestu íslensku hótelin samkvæmt Tripadvisor

blackpearl

Hér eru þeir íslensku gististaðir sem eru efst á blaði hjá notendum einnar vinsælustu ferðasíðu í heimi. Hótelstjórar eru sammála um mikilvægi einkunnagjafa notenda Tripadvisor. Á vefnum er að finna tugi þúsunda ummæla um íslenska gististaði.
Því er oft haldið fram að góðir dómar á Tripadvisor geti komið hótelum á toppinn á meðan slæmar umsagnir geti gert út af við gististaði. Og líklega hafa hótelstjörnurnar mun minna vægi í huga stórs hóps túrista en meðaleinkunnin á Tripadvisor.
Á þessum geysivinsæla ferðavef er að finna ríflega 67 þúsund umsagnir um íslensk hótel en sjö af þeim tíu sem hafa fengið hæstu einkunn eru á höfuðborgarsvæðinu. 

Mikil hvatning

Efst á blaði er Black Pearl og hótelstjórinn á þessum nýlega gististað við Tryggvagötuna í Reykjavík er ánægður með toppsætið. „Að vera í fyrsta sæti yfir hótel á Íslandi er mikill heiður enda er Tripadvisor hinn fullkomni mælikvarði á ánægju gestanna. Þjónusta við viðskiptavini er vafalaust mikilvægasta stoðin í rekstri Black Pearl og starfsfólk okkar gerir allt til að gera dvölina að þeirri eftirminnilegustu í lífi gestanna. Við erum mjög þakklát fyrir þessa jákvæðu umsögn og dómarnir á Tripadvisor eru okkur hvatning á hverjum degi,“ segir Joost Haandikman, hótelstjóri Black Pearl. 

Íbúðir á toppnum

Black Pearl er ekki hefðbundið hótel því þar eru leigðar út íbúðir og eru þær minnstu tæpir áttatíu fermetrar. Í næstu sætum á eftir Black Pearl á Íslandslista Tripadvisor eru tvö önnur íbúðahótel en í því fjórða er Alda Hotel við Laugaveginn. Snorri Thors, hótelstjóri Alda Hotel segir að það sé mikilvægt að vera ofarlega á lista hjá Tripadvisor en einnig hjá hótelbókunarsíðum. „Þeir sem ferðast til landsins skoða í auknum mæli umfjallanir um gististaði og afþreyingu á netinu og velja sér hótel eftir því. Þeir gestir sem gista hjá okkur á vegum t.d Booking.com og Expedia geta gefið okkur einkunn þegar þau hafa gist hjá okkur og þar skorum við einnig hátt.“

Bestu íslensku hótelin samkvæmt einkunnum notenda Tripadvisor:

  1. Black Pearl, Reykjavík
  2. Reykjavik Residence Hotel
  3. Reykjavik4you Apartments
  4. Alda Hotel, Reykjavik
  5. Hotel Berg, Reykjanes
  6. Fosshótel Austfjörðum, Fáskrúðsfirði
  7. Kvosin Downtown Hotel, Reykjavík
  8. Castle House Luxury Apartments, Reykjavík
  9. Hotel Rangá
  10. Reykjavík Residence Suites