Samfélagsmiðlar

Hlutfall kvartana vegna ferðamála mun hærra hér á landi

Ríflega helmingur þeirra erinda sem berast skrifstofu Evrópsku neytendaaðstoðarinnar hér á landi snúa að ferðalögum. Íslenskir neytendur geta einnig leitað aðstoðar vegna sinna mála.

ecc mynd

Árið 2005 var Evrópska neytendaaðstoðin (ECC) sett á laggirnar og markmiðið með henni er að aðstoða íbúa á EES-svæðinu í tengslum við viðskipti við seljendur sem einnig eru innan EES. Það eru Neytendasamtökin sem reka skrifstofu ECC á Íslandi og helmingur (49%)  þeirra erinda sem þangað berast tengjast ferðamálum. Auk þess snúa sex af hverjum hundrað kvörtunum að viðskiptum við hótel og veitingastaði. Hlutfall ferðamála er því mjög hátt og hærra en almennt gerist innan ECC þar sem um þrjú af hverjum tíu málum tengjast málaflokknum. Hildigunnur Hafsteinsdóttir, stjórnandi NCC á Íslandi, telur að þessi sérstaka skipting hér á landi endurspegli hve mikið af ferðamönnum komi hingað en hún segir einnig töluvert um að Íslendingar leiti til skrifstofunnar vegna vandræða með erlend flugfélög eða bílaleigur.

Mörg mál leidd til lykta

Um það bil helmingur þeirra kvörtunarmála sem berast til ECC leysast með samkomulagi við seljanda þannig að neytandinn er sáttur að sögn Hildigunnar. Hinum helmingnum getur lyktað á ýmsan hátt, sum mál eru send til úrskurðarnefnda eða eftirlitsstjórnvalda og hafni seljandi öllum samningaleitunum getur þurft að fara með málið fyrir dóm. Í einhverjum tilvikum kemur svo í ljós að neytandinn á einfaldlega ekki lagalegan rétt á úrbótum af hálfu seljanda.

Málunum sinnt í heimalöndum beggja aðila

Það kostar ekkert að leita til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar en áður en hægt er senda inn erindi þarf kaupandinn sjálfur að hafa kvartað við seljandann. Ef sérfræðingar ECC telja að neytandinn hafi rétt í málinu þá er það sent til ECC skrifstofunnar í heimalandi seljandans þar sem starfsfólkið þar þekkir lögin í viðkomandi landi og talar sama tungumál og seljandi. Íslenskur neytandi sem kvartar undan erlendum aðila er hins vegar ávallt í samskiptum við skrifstofu EEC á Íslandi þó mál hans sé rekið í öðru EES landi. Hildigunnur segir að þetta ferli sé í flestum tilvikum skjótvirkt enda sé samstarf milli landanna öflugt og náið.

Margir kvarta undan íslenskum bílaleigum

Stór hluti þeirra erinda sem berast skrifstofunni hér á landi snýr að íslenskum bílaleigum líkt og Túristi greindi frá. Í mörgum tilfellum telja erlendu leigutakarnir að þeir hafi ekki fengið nægjanlega upplýsingar um þær hættur sem hér geta skapast og þá sérstaklega möguleikann á sand- og öskutjóni að sögn Ívars Halldórssonar, lögfræðings hjá ECC. Hann bendir á að þess háttar tjón séu mjög sjaldgæf í nágrannalöndunum og því átti margir sig ekki á hættunni og kaupi því ekki viðeigandi tryggingar þegar þær eru í boði. Það er einnig algengt að ferðamenn séu rukkaðir fyrir tjón á bifreiðum sem þeir hafa verið með í leigu og kannast ekkert við að hafa valdið. Reikningar vegna þessara atvika berast leigutökum fyrst eftir að heim er komið og þeir eiga því erfitt með að mótmæla. Að mati Ívars mætti forðast slík mál ef leigutökum væri boðið að vera viðstaddir skoðun á bifreið við skil og þeir fengju í kjölfarið undirritaða yfirlýsingu um að ástand bifreiðarinnar sé fullnægjandi og ekki verði krafist greiðslu vegna frekari skemmda. Hann segir að sumar bílaleigur geri slíkt í dag en ekki allar. „Þar sem ferðaiðnaðurinn fer sífellt stækkandi hér á landi þá er mikilvægt að til staðar séu greinargóðar og skýrar reglur um réttindi og skyldur aðila, ásamt því að virkt opinbert eftirlit sé með starfsemi bílaleiga.“

Eins og áður segir á Evrópska neytendaaðstoðin tíu ára afmæli um þessar mundir og frá upphafi hefur þjónustan, sem skrifstofur ECC veita, verið ókeypis fyrir neytendur. Á heimasíðu ECC er að finna gagnlegar upplýsingar fyrir ferðamenn og aðra neytendur og einnig má sækja sérstakt ECC ferðaapp. Hér fyrir neðan er svo stutt kynningarmyndband um Evrópsku neytendaaðstoðina.

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …