Þriðjungi lengur að fljúga styttri leið

Þeir sem fara með Icelandair til Glasgow eru rétt um tvo tíma í háloftunum en þeir sem fljúga með félaginu til Aberdeen eru nærri þrjá tíma á leiðinni þó síðarnefnda borgin sé nær Keflavíkurflugvelli.

icelandair flug

Um langt skeið hefur Icelandair boðið upp á áætlunarflug til skosku borgarinnar Glasgow og í dag hóf félagið sölu á miðum til Aberdeen á austurströnd Skotlands. Það er Flugfélag Íslands, systurfélag Icelandair, sem mun sjá um flugið til þessa nýja áfangastaðar og verður ein af Bombardier farþegavélum félagsins nýtt í flugið. Samkvæmt heimasíðu Icelandair mun það taka Bombardier vélina tvo tíma og fimmtíu mínútur að fljúga héðan til Aberdeen. Flugleiðin er 1.314 kílómetrar sem er 55 kílómetrum styttri leið en fara þarf til Glasgow. Hins vegar tekur flugið til þeirrar borgar aðeins tvo tíma og fimm mínútur enda eru ferðirnar þangað farnar á Boeing þotum Icelandair. Það tekur því farþega Icelandair ríflega þriðjungi lengri tíma að fljúga til Aberdeen en til Glasgow. Ódýrustu fargjöldin til borganna tveggja eru þó hin sömu eða 17.205 krónur samkvæmt athugun Túrista.

Íslendingar halda ekki lengur uppi fluginu

Eins og áður segir hefur Glasgow verið hluti að leiðakerfi Icelandair í áratugi og í dag flýgur félagið þangað fimm sinnum í viku. Flugleiðin hefur þó ekki alltaf gengið vel og sumarið 2009 lagði Icelandair til að mynda niður flug milli Íslands og Glasgow. Veturinn eftir tók félagið upp þráðinn að nýju en þá með því að sameina ferðirnar þangað og til ensku borgarinnar Manchester. Vélarnar fóru þá frá Keflavíkurflugvelli til Englands og þaðan yfir til Glasgow og svo heim á ný. Í tilkynningu frá Icelandair kom fram að ástæðan fyrir þessu hringflugi væri sú að flugið til borganna tveggja hefði byggt að verulegu leiti á ferðum íslenskra farþega en vegna gengisþróunar hefði dregið mjög úr utanferðum Íslendinga.
Í dag er hlutfall íslenskra farþega Icelandair hins vegar 15 prósent og reiknar forstjóri félagsins með að það lækki áfram. Íslendingar halda því ólíklega uppi flugleiðum hjá Icelandair í dag líkt og raunin var með flugið til Manchester og Glasgow fyrir nokkrum árum síðan.