Fljúga tómum breiðþotum milli Íslands og Japan

Ekki tókust samningar við íslenska ferðaskrifstofu um sölu á sætum í ferðir Japan Airlines hingað til lands. Vélar félagsins fljúga því tómar frá Keflavíkurflugvelli til Tókýó og Osaka.

flugtak 860 a

Líkt og síðustu þrjú ár mun flugfélagið Japan Airlines fljúga hingað til lands í september með japanska ferðamenn. Farnar verða þrjár ferðir frá Tókýó og ein frá Osaka og er þetta eina farþegaflugið á milli Japan og Íslands. Hingað til hafa forsvarsmenn japanska flugfélagsins ekki sóst eftir því að selja laus sæti til íslenskra farþega en á því átti að verða breyting í ár að sögn Hirofumi Otake, talsmanns Japan Airlines í Evrópu. Hann segir, í samtali við Túrista, að viðræður við íslenskar ferðaskrifstofu um sölu á farmiðum hafi hins vegar ekki skilað árangri og því verði breiðþotunum, sem rúma 300 farþega, flogið tómum heim úr fyrstu ferðunum frá bæði Tókýó og Osaka.

Til Japan á einum miða

Þeir sem vilja til Japan frá Íslandi verði því áfram að millilenda í Evrópu á leið sinni þangað. Og þar sem flugið austur kostar sitt er skynsamlegt að kaupa bæði flugið frá Íslandi og framhaldsflugið á einum miða því ef seinkun verður til þess að farþegar missa af tengifluginu þá eru þeir á eigin vegum ef miðarnir eru keyptir af sitthvorum aðila. Tvö af þeim erlendu flugfélögum sem fljúga hingað til lands allt árið um kring bjóða upp á flug áfram til Japan, það eru British Airways og SAS. Það fyrrnefnda hefur Íslandsflug í lok október frá London en skandinavíska flugfélagið flýgur hingað daglega frá Ósló.

Fleiri Japanir í ár

Það sem af er ári hafa ríflega átta þúsund japanskir farþegar innritað sig í flug á Keflavíkurflugvelli sem er aukning um 18 prósent frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Í september, ár hvert, nær hins vegar ferðamannastraumurinn frá Japan hámarki vegna þessa beina flugs Japan Airlines. Í september í fyrra fóru til að mynda 2.117 Japanir um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
ERTU AÐ LEITA AÐ GISTINGU Í ÚTLÖNDUM?