Kanadaflug Icelandair þrefaldast á þremur árum

montreal stor

Næsta vor bætist Montreal við leiðakerfi Icelandair og vélar félagsins mun þá að jafnaði fljúga þrjár ferðir á dag til Kanada.
Fyrir átta árum síðan hóf Icelandair á ný áætlunarflug til Kanada og þá aðeins til Halifax í Nova Scotia. Ári síðar fór félagið jómfrúarferð sína til Toronto, fjölmennustu borgar landins, en fleiri kanadískir áfangastaðir bættust ekki við leiðakerfi Icelandair næstu árin þar á eftir. Í nóvember árið 2013 var hömlum á flugi milli Íslands og Kanada hins vegar aflétt og strax í framhaldinu var boðið upp á vetrarflug til Toronto og vorið eftir bættist við áætlunarflug til Edmonton og Vancouver í vesturhluta Kanada.

Fimm kanadískir áfangastaðir

Í gær var svo tilkynnt að Icelandair myndi, frá og með næsta vori, fljúga til hinnar frönskumælandi Montréal en Túristi sagði í vor frá orðrómi um að félagið myndi hefja flug þangað innan skamms.
Til að byrja með verða ferðirnar þangað fjórar í viku og ef áætlunin til Toronto, Halifax, Vancouver og Edmonton helst óbreytt á næsta ári þá mun Icelandair bjóða vikulega upp á 22 ferðir til Kanada frá vori og fram í byrjun vetrar. Það er mikil aukning á skömmum tíma því sumarið 2013 flugu vélar Icelandair aðeins þrisvar sinnum í viku til Halifax og fjórar ferðir til Toronto. Framboð Icelandair á Kanadaflugi næsta sumar verður ríflega þriðjungi meira en það var í hittifyrra.

Samkeppni í kortunum

Innan skamms mun WOW air kynna áætlun sína fyrir næsta ári en í vor hafði Morgunblaðið það eftir Skúla Mogensen, forstjóra félagsins, að Montreal myndi einnig bætast við leiðakerfi WOW air á næsta ári. Ekki hefur þó fengist staðfest hvenær félagið hyggist hefja sölu farmiða á sinni fyrstu kanadísku flugleið. Icelandair er því ennþá eitt um flugið til Kanada þar sem ekkert þarlent flugfélag hefur sýnt áætlunarflugi hingað áhuga. 
LESTU LÍKA: HVERFIN Í VANCOUVER2 DAGAR Í TORONTO