Íslensku flugfélögin sitja ekki lengur ein að Boston

norwegian velar860

Hingað til hafa Icelandair og WOW air verið einu norrænu flugfélögin með áætlunarflug til Boston. En á því verður mikil breyting á næsta ári þegar Norwegian hefur flug til Logan flugvallar frá Kaupmannahöfn og Ósló. Hingað til hafa Icelandair og WOW air verið einu norrænu flugfélögin með áætlunarflug til Boston. En á því verður mikil breyting á næsta ári þegar Norwegian hefur flug til Logan flugvallar frá Kaupmannahöfn og Ósló.
Daglega er flogið þrisvar til fjórum sinnum á dag héðan til bandarísku borgarinnar Boston og flugleiðin er sú fimmta vinsælasta á Keflavíkurflugvelli. Icelandair var lengi vel eitt um áætlunarflugið þangað en WOW air hóf flug til borgarinnar í mars síðastliðnum og flýgur nú þangað sex sinnum í viku á meðan ferðir Icelandair eru tvær til þrjár á dag.

Þurfa ekki lengur að millilenda

Ekkert af flugfélögum frændþjóðanna hefur hins vegar boðið upp á áætlunarflug til Boston og hafa farþegar á leið milli Norðurlandanna og Massachussets fylkis því þurft að millilenda á leið sinni yfir hafið. Það má reikna með að Icelandair, og nú WOW air, hafi lengi verið fýsilegur kostur fyrir þennan hóp farþega. Sem dæmi má nefna þá er hlutfall skiptifarþega hjá Icelandair rúmlega helmingur og líkt og Túristi greindi frá þá er vísbending um að hlutfall tengifarþega í flugi milli Kaupmannahafnar og Keflavíkurflugvallar hafi aukist töluvert í sumar.

Líka harðari samkeppni í London

Í sumar hafa verið vangaveltur uppi um að SAS, stærsta flugfélag Norðurlanda, muni hefja áætlunarflug til Boston á næsta ári en í gær urðu forsvarsmenn Norwegian fyrri til og tilkynntu um flug til borgarinnar frá Ósló, Kaupmannahöfn og Gatwick flugvelli í London. Farnar verða tvær ferðir í viku frá Ósló, ein frá Kaupmannahöfn og fjórar frá Gatwick en til þess flugvallar fljúga bæði Icelandair og WOW air allt að daglega. Ekkert annað flugfélag flýgur í dag beint frá Gatwick til Boston og það er því ljóst að með Bostonflugi Norwegian fá íslensku félögin tvö harða samkeppni þó vissulega sé fjöldi ferða á vegum Norwegian mjög takmarkaður, sérstaklega frá Skandinavíu, fyrst um sinn. 

Munu auka umsvif sín í Boston

„Við vitum að fólk vill helst fljúga beint milli áfangastaða. Það er bæði þægilegra, umhverfisvænna og sparar tíma. Við höfum mikla trú á að flugið til Boston verði vinsælt, ekki bara hjá Skandinövum og Bretum heldur einnig Bandaríkjamönnum“, segir Lasse Sandaker-Nielsen, talsmaður Norwegian, aðspurður um hvað norska félagið hafi að bjóða umfram þau íslensku í flugi til Boston. Hann segir að það liggi líka beint við að félagið muni auka umsvif sín í flugi til Boston á næstu árum, til að mynda með fleiri flugleiðum þangað. Sandaker-Nielsen bendir jafnframt á að flugfloti félagsins samanstandi af nýjustu flugvélagerðinni á markaðnum, Boeing 787 Dreamliner. En þess má geta að Norwegian tók á sínum tíma yfir pöntun FL-Group á tveimur þess háttar vélum.