Kanna áfram úthlutun afgreiðslutíma fyrir millilandaflug

flugtak 860

Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða í málinu verður kynnt en sérfræðingar eftirlitsins hafa haft það til meðferðar í tvö og hálft ár. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða í málinu verður kynnt en sérfræðingar Samkeppniseftirlitsins hafa haft það til meðferðar í tvö og hálft ár.
Í ársbyrjun 2013 kvörtuðu stjórnendur WOW air til Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Eftirlitið tók undir rök WOW air og úrskurðaði í október sama ár að flugfélagið ætti rétt á tveimur af afgreiðslutímum Icelandair við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála snéri úrskurðinum við og héraðsdómur og Hæstiréttur vísuðu málinu frá. Í millitíðinni fór það einnig fyrir EFTA dómstólinn. 

Athugun langt á veg komin

Á sama tíma og málið velktist um í dómskerfinu hefur Samkeppniseftirlitið haft til skoðunar samskonar erindi frá WOW air sem snýr að úthlutun fyrir sumarvertíðina sem nú er brátt á enda. Þrátt fyrir að tímabilið sem um ræðir sé að klárast þá eru sérfræðingar Samkeppniseftirlitsins ennþá með málið í vinnslu. Í svari frá eftirlitinu segir að verið sé að meta seinni kvörtun WOW air með hliðsjón af eldra máli, þ. á m. túlkun á dómi EFTA-dómstólsins. „Í því efni hefur verið leitað sjónarmiða stjórnvalda á þessu sviði auk hagsmunaaðila. Sú athugun er langt á veg komin en of snemmt sé að segja hvenær málinu ljúki endanlega.“