Kaupmannahöfn fór fram úr London í júlí

kaupmannahofn yfir

Höfuðborg Bretlands er alla jafna sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli en sú danska nær toppsætinu yfir hásumarið. Höfuðborg Bretlands er alla jafna sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli en sú danska nær toppsætinu yfir hásumarið. 
Yfir vetrarmánuðina setur um fimmta hver flugvél sem tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli stefnuna á London og um tíunda hver fer til Kaupmannahafnar. Á sumrin fjölgar flugleiðunum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar töluvert og vægi höfuðborga Bretlands og Danmerkur minnkar en þær eru þó áfram þeir tveir áfangastaðir sem oftast er flogið til. Í júlí eykst umferðin til Kaupmannahafnar vanalega meira en til Lundúna og þannig var það einnig í síðastliðnum mánuði. Þá voru farnar 162 áætlunarferðir héðan til Kaupmannahafnar eða ríflega fimm á dag á meðan ferðirnar á flugvellina í nágrenni við London voru 151 talsins samkvæmt talningu Túrista. Vægi annarra áfangastaða, í umferðinni um Keflavíkurflugvöll, er nokkru minni eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan en samtals var boðið upp á áætlunarflug til 56 borga í júlí.

Þær borgir sem oftast var flogið til í júlí

  1. Kaupmannahöfn: 8,1% allra brottfara
  2. London: 7,5% allra brottfara
  3. París: 6,7% allra brottfara
  4. New York: 6,2% allra brottfara
  5. Boston: 6% allra brottfara
  6. Ósló: 5,7% allra brottfara
  7. Amsterdam: 4,6% allra brottfara
  8. Stokkhólmur: 3,3% allra brottfara
  9. Washington: 3,3% allra brottfara
  10. Berlín: 3,2% allra brottfara