Bjóða flug til London á 5.055 krónur í allan vetur

british airways

Í byrjun vetrar hefur breska flugfélagið British Airways flug til Íslands frá Heathrow í London. Lægstu fargjöld félagsins eru mun ódýrari en hjá samkeppnisaðilunum. Í byrjun vetrar hefur breska flugfélagið British Airways flug til Íslands frá Heathrow í London. Lægstu fargjöld félagsins eru mun ódýrari en hjá samkeppnisaðilunum. Þeir sem eru á leið langt í austur geta líka fundið ódýra farmiða.
Framboð á flugi héðan til London hefur nærri þrefaldasta síðustu ár og Bretar eru langstærsti hópur ferðamanna hér á landi utan háannatíma. Í vetur verða í boði allt að 56 ferðir í viku frá Keflavíkurflugvelli til fjögurra flugvalla í nágrenni við London en þær voru 19 í viku fyrir þremur árum. Hingað til hefur Icelandair hins vegar verið eitt um flug héðan til Heathrow, stærsta flugvallar Evrópu, en á því verður breyting í lok október þegar British Airways hefur Íslandsflug á ný eftir sjö ára hlé. Félagið mun fljúga þrisvar í viku en Icelandair fer þessa leið tvisvar á hverjum degi.

Mikill verðmunur, með og án farangurs

Yfir vetrarmánuðina lætur nærri að fimmta hver þota, sem tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli, taki stefnuna á höfuðborg Bretlands. Umferðin til annarra áfangastaða er mun minni og samkeppnin líka. En af fargjöldunum að dæma þá ætla forsvarsmenn British Airways að veita hinum félögunum harða samkeppni í flugi til London og bjóða þeir í dag mun lægri fargjöld en easyJet, Icelandair og WOW air. Þannig má finna farmiða með breska félaginu, aðra leiðina, frá Íslandi á 5.055 krónur á fjöldamörgum dagsetningum í vetur. Það er þó án farangursheimildar en til samanburðar kostar þess háttar farmiði að minnsta kosti 8.867 krónur hjá easyJet og 9.999 með WOW air samkvæmt athugun Túrista. Hjá WOW air bætist reyndar 999 króna bókunargjald ofan á allar pantanir og því ekki hægt að fá miða á auglýstu verði. Icelandair er eina félagið sem er með farangursheimild í sínu lægsta fargjaldi og kostar það 17.455 krónur. Það er jafn mikið og ódýrustu miðarnir kosta, báðar leiðir, með British Airways í vetur því félagið selur flugið frá London til Íslands á hærra verði en fluglegginn frá Íslandi. Þess má geta að framboð á þessum ódýrstu farmiðum er langmest hjá íslensku félögunum tveimur en minnst hjá easyJet.

 Flugfélag Ódýrustu farmiðar án farangurs Ódýrustu farmiðar með farangri
British Airways5.055 kr.8.155 kr.
easyJet8.867 kr.12.414 kr. 
Icelandair17.455 kr.17.455 kr. 
WOW air10.998 kr.14.997 kr. 

Til Dubai fyrir 57 þúsund krónur

Með Íslandsflugi British Airways opnast flugfarþegum hér á landi sá möguleiki að fljúga héðan, yfir vetrarmánuðina, til fjöldamargra áfangastaða í Asíu, Afríku, Eyjaálfu og S-Ameríku með sama flugfélaginu og á einum miða. Farþegar eru þá á ábyrgð flugfélagsins ef seinkanir verða til þess að þeir missa af framhaldsflugi. Í dag er t.a.m. hægt að bóka miða héðan, báðar leiðir, með British Airways til Dubai á rúmar 57 þúsund krónur, ódýrustu miðarnir til Hong Kong eru á 95 þúsund en þeir sem ætla til Ríó de Janeiro eða Sydney borga að lágmarki 130 til 155 þúsund. 
Þeir sem vilja hafa flugið héðan og tengiflugið á einum miða geta líka keypt miða hjá Icelandair, SAS eða ferðaskrifstofum en þurfa þá í flestum tilfellum að fljúga með tveimur mismunandi flugfélögum.
SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM ÚT UM ALLAN HEIM og BÍLALEIGUBÍLUM