Á heimavelli í Portland: Kieron Weidner

kieron 5

Þegar forsvarsmenn ferðamálaráðs Portland vilja sýna góðum gestum borgina þá er hóað í fararstjórann Kieron Weidner. Hann deilir hér með lesendum Túrista sínum uppáhalds stöðum í borginni og er með hugmynd að góðu ferðalagi um Oregon fylki.

Hvaða hlutar borgarinnar eru í mestu metum hjá þér?
Mín eftirlætis hverfi eru Division og Hawthorne í suðausturhluta Portland. Þar eru færri ferðamenn enda ekki eins auðvelt að koma sér þangað fyrir þá sem ekki þekkja til. Þarna upplifir maður ósvikna Portland stemningu og þess vegna bý ég á þessu svæði.
Hvað mega ferðamenn ekki láta framhjá sér fara í Portland?
Topplistinn minn lítur svona út: Mississippi stræti, NW 23rd Avenue til að versla, Powell bókabúðin, Pioneer Square, Saturday Farmer´s Market og svo verður að gera götumatnum og litlu kaffihúsunum og brugghúsunum eins góð skil og mögulegt er.
Hvar fær maður góðan kvöldmat?
Möguleikarnir eru ótakmarkaðir en í uppáhaldi hjá mér akkúrat núna eru Little Bird, Ox, Andina og Fish Sauce
En hvar er best að gista?
Í miðborginni eru mörg minni „boutique“ hótel en ég myndi mæla með Ace Hotel á vesturbakkanum eða Jupiter Hotel á austurbakkanum.
Hvert fer ég til að versla?
Fínu búðirnar eru á NW 23rd Avenue, við Union Way finnur maður Portland merkin og í Hawthorne (SE) eru góðar vörur í ódýrari kantinum og líka notað.
Portland og Oregon eru þekkt fyrir framúrskarandi kaffi, bjór og vín. En hvað matur er mest lókal?
Árstíðirnar stjórna því. Við erum þekkt fyrir besta lífræna matinn í landinu og hann kemur allur úr nágrenni borgarinnar. Sjávarfangið er frábært allt árið um kring en ef ég ætti að velja einn rétt sem er í mestu uppáhaldi hjá borgarbúum þá verð ég að nefna beikonið.
Hvernig er uppskriftin að góðum eftirmiðdegi í Portland?
Fá sér kaffi á Stumpton á Ace hótelinu, setjast svo í lobbíið og fylgjast með fólkinu. Kíkja í búðarglugga við Union Way og sökkva sér í bækurnar í Rare book herberginu í Powell bókabúðinni. Því næst ganga um Pearl District og setjast niður á Clyde Commons og fá sér drykk á „Happy hour“. Svo er ljómandi að enda rúntinn með því að kíkja á óháða kvikmynd í Living Room Theater eða á tónleika í Doug Fri. Dinner og njóta útsýnisins yfir Departure Lounge.
Þú hefur mikla reynslu af því að skipuleggja ferðir um Oregon fylki. Ertu með hugmynd að stuttu ferðalagi um fylkið?
Ég myndi mæla með sveig um Portland. Dagur 1: Fara austur til Columbia Gorge og njóta fossanna þar yfir daginn en gista við Hood ána. Dagur 2: Keyra suður til Hood River Valley og heimsækja vínframleiðendur, skoða aldingarða og fara svo í göngu eða klifur í Smith Rock State Park. Síðan kíkja á bjórhúsin og gista í Bend. Dagur 3: Heimsækja Crater Lake og halda svo í vestur inní Willamette Valley og eyða kvöldinu og nóttinni á Wine County svæðinu. Dagur 4: Fara enn vestar í átt að ströndinni og fara í hvalaskoðun eða jafnvel á brimbretti eða bara borða góða sjávarrétti. Keyra svo í norður og gista við Cannon Beach eða Manzanita. Dagur 5: Morgunganga í Ecola State Park og svo fara í austur eftir vegi 26, stoppa við Camp 18 og borða risastórar pönnukökur og halda svo ferðinni áfram til Portland.

Kieron Weidner rekur leiðsögufyrirtækið First Nature Tours og þar má finna úrval af ferðum um Portland, Oregon og aðra hluta norðvesturparts N-Ameríku. Icelandair hóf áætlunarflug til Portland í vor.

Túristi heimsótti Portland í boði Icelandair og ferðamálaráðs Portland og Oregon