Vinsældir Íslands komu stjórnendum Lufthansa á óvart

Forsvarsmenn stærsta flugfélags Evrópu breyttu um kúrs í Íslandsfluginu og þeir segja að breytingarnar hafa fengið virkilega góðar viðtökur.

lufthansa 319

Í maí hóf Lufthansa áætlunarflug hingað frá Frankfurt og Munchen og er þetta í fyrsta skipti sem félagið býður upp á Íslandsferðir frá þessum tveimur stærstu flughöfnum Þýskalands. Áður hafði félagið flogið hingað frá Dusseldorf, Hamborg og Berlín yfir aðalferðamannatímann en dótturfélagið German Wings hefur tekið þær flugleiðir yfir. Forsvarsmenn Lufthansa gerðu einnig þá breytingu að fljúga til Íslands yfir miðjan daginn í stað þess að bjóða aðeins upp á kvöld- og næturflug. Að sögn Christian Schindler, framkvæmdastjóra hjá Lufthansa, þá hafa nýir áfangastaðir og flugtímar mælst mun betur fyrir en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Sætanýtingin í Íslandsfluginu hefur verið 83 prósent í sumar og hlutfallið fyrir ágúst verður ennþá hærra enda hefur þessi mánuður verið frábær.“

Mikil eftirspurn í Kína og Ísrael

Upphaflega gerðu áætlanir Lufthansa ráð fyrir að aðallega Þjóðverar sem myndu nýta sér Íslandsflug félagsins en eftirspurnin frá öðrum mörkuðum, til dæmis Kína og Ísrael, hefur verið mun meiri en búist var við. Schindler bendir á að Lufthansa sé með mjög sterka stöðu í Evrópuflugi frá Kína og þar hafi áætlunarferðirnar til Íslands verið kynntar sérstaklega. Þess má geta að það sem af er ári hefur kínverskum ferðamönnum hér á landi fjölgað um 76,8 prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Margir Íslendingar kaupa tengiflug

Það eru í langflestum tilfellum erlendir ferðamenn sem skipa farþegarýmin hjá Lufthansa í fluginu til og frá Íslandi að sögn Schindler. Þeir íslensku farþegar sem nýta sér flugið hafa í mörgum tilfellum einnig bókað tengiflug og þá er ferðinni oftast heitið til flugvalla í Serbíu, Ítalíu eða Austurríki.
Þrátt fyrir góðar viðtökur þá hafa stjórnendur Lufthansa ekki tekið ákvörðun um fjölgun ferða til Íslands á næsta ári.