Vinna að áætlunarflugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar

kaupmannahofn yfir

Á næsta ári er útlit fyrir að Norðlendingar geti á ný flogið beint til höfuðborgar Danmerkur. Farið mun kosta á bilinu 60 til 70 þúsund krónur. Á næsta ári er útlit fyrir að Norðlendingar geti á ný flogið beint til höfuðborgar Danmerkur. Farið mun kosta á bilinu 60 til 70 þúsund krónur.
Millilandaflug frá Akureyrarflugvelli hefur verið af skornum skammti síðustu ár og nær eingöngu takmarkast við leiguflug á vegum ferðaskrifstofa eftir að Iceland Express hætti áætlunarflugi þaðan sumarið 2012. Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Transatlantic vinna hins vegar að því að bjóða upp á áætlunarferðir frá höfuðstað Norðurlands til Kaupmannahafnar allt næsta sumar og fram á haust. Eistneska flugfélagið Estonian Air mun sjá um flugið og Akureyri yrði nýr áfangastaður félagsins sem farþegar þess, alls staðar að, gætu bókað sæti til. Farþegar hér á landi gætu þá einnig flogið með félaginu frá Akureyri til Tallinn í Eistlandi með viðkomu á Kaupmannahafnarflugvelli. Í vélum Estonian Air yrðu sæti fyrir 84 farþega.

Laugardagsferðir í allt sumar

Stefnt er að því að bjóða upp á brottfarir alla laugardaga frá lokum maí og út september næsta sumar að sögn Egils Arnar Arnarssonar Hansen hjá Transatlantic. Ef eftirspurn er fyrir hendi þá er hægt að fjölga ferðum. Hvort af Akureyrarfluginu verður kemur í ljós í kringum áramót en nú er verið að kanna áhuga meðal ferðaskipuleggjanda í Danmörku, Eistlandi og Íslandi á því að nýta sér áætlunarferðirnar. Einstaklingar munu einnig geta bókað sæti og gerir Egill ráð fyrir að flugið, báðar leiðir, muni kosta á bilinu 60 til 70 þúsund og verður innritaður farangur innifalinn.