Tíundi hver farþegi í Ameríkuflugi WOW kemur frá Íslandi

wowair freyja

Í vor hóf WOW air áætlunarflug til Bandaríkjanna og félagið hefur nú flutt 72 þúsund farþega yfir hafið. Forstjóri flugfélagsins telur þjóðarbúið hafa orðið af milljörðum. Síðan WOW air hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna hefur félagið flutt 72 þúsund farþega yfir hafið. Forstjóri flugfélagsins telur þjóðarbúið hafa orðið af milljörðum vegna þess að ekki fékkst afgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli sumarið 2014 fyrir Ameríkuflug WOW.
Fyrir tæpu hálfu ári síðan fór WOW air jómfrúarferð sína til Bandaríkjanna þegar áætlunarflug félagsins til Boston hófst og í maí bættist Washington við leiðakerfi félagsins. Nú hafa um 72 þúsund farþegar nýtt sér áætlunarflug WOW air til og frá þessum tveimur bandarísku flugvöllum samkvæmt tilkynningu. Þess ber að geta að hver farþegi er talinn per fluglegg og tengifarþegar eru inni í þessari tölu.

Fáir Íslendingar koma ekki á óvart

Í síðasta mánuði hóf fjórði hver farþegi WOW air ferðalagið á Íslandi en í Ameríkuflugi WOW er hlutfall íslenskra farþega mun lægra eða aðeins um tíu prósent. Þetta lága vægi Íslendinga í fluginu vestur kemur stjórnendum WOW air hins vegar ekki á óvart. 

Urðu af milljörðum

Í tilkynningu sem WOW sendir frá sér í morgun segir að farþegum milli Boston og Íslands hafi fjölgað um 130 prósent frá lokum mars í samanburði við sama tíma í fyrra. Þar segir jafnframt að miðað við meðalkortaveltu ferðamanna þá megi ætla að þessi aukning hafi skilað nærri einum milljarði íslenskra króna í þjóðarbúið. Skúli Mogensen, forstjóri WOW, segir í svari til Túrista að sú tala hefði getað verið mun hærri ef félagið hefði fengið afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli sumarið 2014 fyrir flug til Bandaríkjanna. „Miðað við áætlanir okkar um fjölda farþega frá Norður-Ameríku til Íslands með WOW air á þessu tímabili má gera ráð fyrir að tekjumissir íslensku ferðaþjónustunnar sé um 3,5 milljarða króna miðað við meðalkortaveltu bandarískra ferðamanna.“

Lægri fargjöld

Í dag flýgur WOW air sex sinnum í viku til Boston og fimm sinnum til Washington og samkvæmt upplýsingum félagsins úr bókunargagnagrunnum þá hafa fargjöld milli Íslands og Boston lækkað um 30 prósent frá því í fyrra þegar Icelandair var eitt um þessa flugleið. Forsvarsmenn WOW air stefna á að rúmlega tvöfalda sætaframboð sitt til og frá Norður-Ameríku á næsta ári með tilkomu nýrra áfangastaða.