Jákvætt að erlend flugfélög sýni útboði áhuga

flug danist soh

Í fyrsta skipti í nærri fimm ár leitar hið opinbera tilboða í farmiðakaup sín. Útlit er fyrir að valið standi ekki aðeins á milli Icelandair og WOW air. Á næstunni verður á ný leitað tilboða í hluta af farmiðakaupum hins opinbera. Útlit er fyrir að valið standi ekki aðeins á milli Icelandair og WOW air og því fagnar framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda. 
Ríkiskaup munu innan skamms auglýsa útboð á farmiðakaupum allra ráðuneytanna en nú eru nærri fjögur og hálft ár liðin frá því að ríkið bauð síðast út kaup sín á farseðlum. Þá bárust aðeins tilboð frá Icelandair og Iceland Express.
Að þessu sinni er útlit fyrir að samkeppni um viðskipti ríkisins verði mun meiri því forsvarsmenn nokkurra erlendra flugfélaga, sem hingað fljúga, hafa hug á því að skoða möguleika á að skila inn tilboðum líkt og Túristi greindi frá

Ábati fyrir skattgreiðendur

Félag atvinnurekenda, ásamt forsvarsmönnum WOW air, hafa lagt áherslu á það um langt skeið að nýtt útboð verði haldið og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, fagnar áhuga útlendu flugfélaganna. „Þetta eru mjög jákvæðar fréttir. Það er auðvitað frábært að sjá áhuga erlendis frá. Því fleiri sem taka þátt, þeim mun meiri er samkeppnin, sem svo leiðir af sér lægra verð og aukinn ábata fyrir sameiginlegan sjóð skattgreiðenda.“ 

Aðeins fimm flugleiðir boðnar út

Um síðustu áramót leitaði danska ríkið tilboða í farmiðaviðskipti sín og var samið við eitt til þrjú flugfélög um flug til 178 áfangastaða en þó ekki Íslands. Samkvæmt upplýsingum Túrista frá SKI, dönsku innkaupastofnuninni, verða opinberir starfsmenn í Danmörku í öllum tilvikum að velja ódýrasta miðann sem býðst á hverri flugleið og mega þeir aðeins beina viðskiptum til þeirra flugfélaga sem samið var við. Aðeins flugfélög sem bjóða upp á beint flug, tvisvar til þrisvar í viku gátu boðið í hverja flugleið en félög sem geta boðið upp á tengiflug gátu einnig gert tilboð en þau verða þá að tryggja að ferðatíminn sé innan ákveðinna marka. Danska útboðið var mun ítarlegra en það síðasta sem haldið var hér á landi því í samningi Ríkiskaupa við Iceland Express og Icelandair, sem undirritaður var árið 2011, var aðeins samið um ákveðin kjör á farmiðum til fimm áfangastaða; London, Kaupmannahafnar, Brussel, New York og Boston. Ekki voru heldur gerðar neinar kröfur um hámarks ferðatíma ólíkt því sem Danirnir gerðu. 

Tóku óhagstæðu tilboði

Forsvarsmenn Iceland Express kærðu niðurstöðu útboðsins og komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaup hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup með því að velja tilboð Icelandair því tilboð Iceland Express hafi fengið mun lægra. Ríkiskaup bentu hins vegar á að það væri ekki aðeins verð sem horft hefði verið til heldur einnig framboð og tíðni ferða. Þar hafi Icelandair haft yfirburðastöðu gagnvart Iceland Express.
Til að koma í veg fyrir að næsta útboð verði eins umdeilt og það síðasta verður að teljast líklegt að nú verði boðnar út fleiri flugleiðir og settar skýrari kröfur um fjölda ferða og möguleika á tengiflugi. Íslenskir ríkisstarfsmenn sem eiga erindi til höfuðborga Spánar, Austurríkis, Ítalíu eða Austur-Evrópu yfir vetrarmánuðina verða til að mynda að millilenda á leið sinni þangað. Þar gætu erlend flugfélög eins og SAS, British Airways og jafnvel Norwegian boðið betri kjör en íslensku félögin. EasyJet, sem er þriðja umsvifamesta flugfélagið hér á landi, býður hins vegar ekki upp á farseðla með tengiflugi og farþegar félagsins eru því á eigin vegum ef þeir þurfa að ná framhaldsflugi.

Engir punktar í boði

Eins og áður er stefnt að því að kynna útboð á farmiðum stjórnarráðsins innan skamms og þá kemur í ljós að hvaða leyti það verður frábrugðið útboðinu sem haldið var árið 2011. Nú þegar er hins vegar ljóst að reynt verður að koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun einstaklinga í komandi útboði samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum.