Kemur kaupbann borgarinnar verst niður á landsbyggðinni?

reykjavik vetur

Erlendir hótelgestir hér á landi gista langoftast á höfuðborgarsvæðinu en það á hins vegar ekki um ferðamenn frá Ísrael. 
Samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur um að sniðganga ísraelskar vörur í innkaupum borgarinnar hefur ekki aðeins vakið athygli hér heima því hún hefur líka fengið umtalsverða umfjöllun í Ísrael og meðal gyðinga vestanhafs. Þar eru viðbrögðin neikvæð og í gær varaði t.a.m. einn af forsvarsmönnum Simon Wiesent­hal stofn­un­ar­inn­ar í Banda­ríkj­un­um gyðinga við að ferðast til Íslands.

Gista miklu oftar úti á landi

Ef það verður til þess að færri Ísraelar heimsæki Ísland þá mun það koma verr niður á hótelum á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Ástæðan er sú að Ísraelar er sá hópur ferðamanna hér á landi sem er langlíklegastur til að gista út á landi. Af þeim 16.493 gistinóttum sem ísraelskir ferðamenn bókuðu á íslenskum hótelum í fyrra þá voru aðeins 31 prósent þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Það er langt undir meðaltalinu því í fyrra voru 69 prósent þeirra gistinátta sem útlendingar keyptu á íslenskum hótelum í Reykjavíkursvæðinu. Skiptingin er mismunandi eftir þjóðum eins og sést á töflunni hér fyrir neðan.
Heimsóknir Ísraela hingað til lands einskorðast nánast við sumarmánuðina en á síðasta ári var vægi ísraelska hótelgesta tæplega eitt prósent á landsvísu.

Eftirspurn eftir Íslandsflugi meðal Ísraela kom á óvart

Ekki er vitað hversu margir Ísraelar koma hingað til lands því þeir eru ekki taldir sérstaklega í talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli. Það sem af er ári hefur ísraelskum gistinóttum hér á landi hins vegar fjölgað um ríflega 13 prósent en líkt og kom fram í viðtali Túrista, við framkvæmdastjóra Lufthansa, þá hefur mikil eftirspurn eftir Íslandsflugi félagsins meðal Ísraela komið óvart í ár.