Neytendastofa setur út á auglýsingar WOW air

wow bokunargjald

Hjá WOW air bætist 999 króna bókunargjald við allar pantanir og því ekki hægt að fá miða á auglýstu verði. Neytendastofa hefur bent forsvarsmönnum félagsins á að þessi framsetning sé ekki samkvæmt reglum. Hjá WOW air bætist 999 króna bókunargjald við allar pantanir og því ekki hægt að fá miða á auglýstu verði. Neytendastofa hefur bent forsvarsmönnum félagsins á að þessi framsetning sé ekki samkvæmt reglum.
Þó það standi í auglýsingum og á heimasíðu WOW air að farmiðar til London kosti 9.999 krónur þá hækka þeir um tíund þegar komið er greiðslu. Ástæðan er sú að bókunargjald upp á 999 krónur leggst ofan á allar farmiðapantanir á heimasíðu félagsins. Gjaldið er lagt á hverja bókun en ekki á hvern farþega sem þýðir að þó pantaðir séu fjórir miðar þá er gjaldið eftir sem áður samanlagt 999 krónur. Þessi háttur hefur verið hafður á síðan í byrjun vetrar 2012 en þá var bókunargjaldið 900 krónur. Nýverið sendi Neytendastofa hins vegar erindi til WOW air þar sem bent er á að endanlegt verð eigi alltaf að koma fram í auglýsingum og framsetningin í kynningarefni WOW air uppfylli ekki þau skilyrði. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan þá kemur ekki fram í auglýsingum sem WOW air birtir í dag að 999 krónur bætist við hverja pöntun.
Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu verður tekin ákvörðun um hvort bókunargjaldið þurfi framvegis að vera í innifalið auglýsingum WOW air þegar svar berst frá flugfélaginu. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, gat ekki tjáð sig um málið við Túrista þegar eftir því var óskað. 

Kreditkortagjöld algeng

Það er þó ekki aðeins hér á landi þar sem farið er fram á að hægt sé að bóka auglýst farmiðaverð því líkt og Túristi sagði frá þá gerðu bresk yfirvöld athugasemd við auglýsingar lággjaldaflugfélaganna easyJet og Ryanair síðla árs 2011 vegna þess að hjá báðum fyrirtækjum var bókunargjaldi bætt við auglýst verð og einnig þau fargjöld sem sýnd voru í netbókunarvél. Í framhaldi gerðu bæði félög breytingar í takt við óskir yfirvalda. Það er hins vegar algengt að kreditkortagjöld séu lögð ofan á fargjöld.

Umtalsverðar tekjur

Í ár er reiknað með að WOW air flytji um 800 þúsund farþega en þar sem hver farþegi er talinn hvora leið þá eru einstaklingarnir um helmingi færri eða um 400 þúsund. Ef gert er ráð fyrir því að viðskiptavinir WOW air panti að jafnaði miða fyrir tvo farþega í einu má búast við að tekjur WOW air af bókunargjaldinu í ár séu tæpar 200 milljónir.