Samfélagsmiðlar

Stefnir í eina og hálfa milljón ferðamanna á næsta ári

Forráðamenn Icelandair gera ráð fyrir að farþegum félagsins fjölgi um fimmtán prósent á milli ára. Það er vísbending um að ferðamönnum hér á landi fjölgi enn meira og fari yfir eina og hálfa milljón. 

erlendir ferdamenn

Það sem af er ári hefur ferðafólki á Íslandi fjölgað um 26,8 prósent og haldi sú þróun áfram næstu mánuði munu samtals hátt í 1,3 milljónir heimsækja landið heim í ár.  Erlendu gestirnir voru um 998 þúsund í fyrra. Í síðustu viku tilkynntu forsvarsmenn Icelandair að þeir áformuðu að farþegum félagsins myndi fjölga um 15 prósent á næsta ári sem er álíka vöxtur og árin á undan. Icelandair stendur undir nærri tveimur af hverjum þremur ferðum til og frá Keflavíkurflugvelli og hefur erlendum ferðamönnum hér á landi fjölgað hlutfallslega nokkru meira en aukningin hefur verið hjá Icelandair. Á þessu ári fjölgar farþegum Icelandair um 17 prósent en eins og áður segir lítur út fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um 27 prósent í ár. Farþegaspá Icelandair er því góð vísbending um hversu mikið erlendum ferðamönnum muni fjölga og ef tengslin milli fjölda farþega hjá Icelandair og fjölda ferðamanna haldast nokkuð óbreytt má búast við að ferðamenn hér landi verði um 1,5 milljón á næsta ári. Sjö árum fyrr en sérfræðingar Boston Consulting Group spáðu fyrir um í hittifyrra. Fyrr í ár spáði Landsbankinn því að þessu marki yrði náð árið 2017.

Nær allir byrja byrja Íslandsferðina í Leifsstöð

97 prósent allra þeirra ferðamanna sem heimsækja Ísland fara um Keflavíkurflugvöll. Icelandair er langumsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli með um 62 til 67 prósent af öllum ferðum til og frá landinu samkvæmt talningum Túrista. Vægi félagsins er hærra yfir vetrarmánuðina en dregst saman yfir sumarið þegar erlendu flugfélögunum fjölgar. Í ár er gert ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rétt um 3 milljónir talsins sem er aukning um 17 prósent frá síðasta ári. Á næsta ári reikna forsvarsmenn Icelandair með að farþegafjöldinn verði 3,5 milljónir sem er aukning um 15 prósent. Hafa ber í huga að hver farþegi er talinn tvisvar, þ.e. á útleið og heimleið og í ár munu því um 1,5 milljónir einstaklinga sitja um borð í vélum Icelandair. Hlutfall erlendra ferðamanna hjá Icelandair var 36 prósent á síðasta ári en skiptifarþegar eru um helmingur og farþegar frá Íslandi voru 16 prósent. Haldist skiptingin milli farþegahópanna álíka á næsta ári má reikna með að Icelandair flytji um 630.000 erlenda ferðamenn til Íslands árið 2016. Eða 42 prósent þeirra ferðamanna sem áætla má að leggi leið sína hingað á næsta ári.

Flugfloti WOW air stækkar um helming

WOW air er næst umsvifamesta flugfélagið hér á landi og áður hefur komið fram að flugfloti félagsins mun stækka um helming á næsta ári, úr sex þotum í níu. Farþegafjöldi félagsins gæti því aukist um allt að helming árið 2016 en í ár er gert ráð fyrir að farþegar verði um 800 þúsund.  Samkvæmt þeim mánaðarlegu tilkynningum sem forsvarsmenn íslensku flugfélaganna senda frá sér þá flytur Icelandair um fjórum til fimm sinnum fleiri farþega en WOW air í hverjum mánuði en með fleiri vélum gæti bilið minnkað. WOW gæti því rofið milljón farþega markið á næsta ári (s.s. um hálfa milljón einstaklinga). Forsvarsmenn WOW air munu á næstunni tilkynna áform sín fyrir næsta ár. Ef hins vegar er gert ráð fyrir að farþegum fjölgi um fjórðung og að hlutfall ferðamanna hjá WOW air sé nokkuð hærra en hjá Icelandair, t.d. vegna færri áfangastaða í N-Ameríku, þá má áætla að félagið flytji að lágmarki um 200 þúsund erlenda ferðamenn hingað á næsta ári. 830 þúsund ferðamenn koma þá hingað með íslensku félögunum tveimur.

Útlendu félögin þurfa að bæta við örfáum ferðum

Ef áform íslensku félaganna tveggja ganga eftir þá munu þau fjölga erlendum ferðamönnum hér á næsta ári um a.m.k. hundrað og þrjátíu þúsund. Öll þau erlendu flugfélög sem hingað fljúga þurfa þá samanlagt að flytja 110.000 fleiri erlenda ferðamenn hingað til lands á næsta ári svo heildarferðamannafjöldinn verði 1,5 milljónir og ef gert er ráð fyrir að fjöldi þeirra sem koma með ferjum haldist óbreyttur. Fullvíst er að hlutfall skiptifarþega hjá útlendu flugfélögunum á Keflavíkurflugvelli er afar lágt og sömu sögu er að segja um íslenska farþega. Þeir hafa til að mynda verið um tíund af farþegum easyJet sem er þriðja umsvifamesta félagið hér á landi. Samkvæmt viðtölum Túrista við forráðamenn erlendra flugfélaga þá er sætanýting í Íslandsflugi í hærri kantinum og ef gert er ráð fyrir að hún sé að jafnaði á bilinu 80 til 85 prósent og að erlendir ferðamenn séu um 9 af hverjum tíu farþegum þá þurfa útlendu flugfélögin samanlagt að fjölga ferðum sínum til Íslands um ca. 2,5 á dag til að ná markinu. Þá er miðað við að flogið sé á millistórum þotum sem rúma um 170 farþega. Nú þegar er ljóst að easyJet og British Airways munu fjölga ferðum hingað frá Bretlandi á næsta ári en það fyrrnefnda fækkar þó vetrarferðum til Sviss. Airberlin mun í fyrsta skipti bjóða upp á áætlunarferðir til Íslands næsta vetur og Túristi hefur heimildir fyrir að stjórnendur fleiri erlendra flugfélaga séu að leggja drög að fjölgun ferða til Íslands á næst ári. Það er því ekki óraunhæft að erlendu félögin, sem eru hátt í tuttugu talsins, muni samtals fjölga ferðunum um 2,5 á dag á næsta ári.

Stefnir í óefni á ný

Síðastliðið sumar voru fréttir af slæmu ástandi við ferðamannastaði tíðar. Samkvæmt fjárlögum næsta árs er hins vegar ekki gert ráð fyrir aukningu í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og vandræði er með úthlutanir úr sjóðnum. Það stefnir því í enn verra ástand á næsta ári ef þessi spá um aukin ferðamannafjölda gengur eftir. Þess má líka geta að stýrihópur viðskipta- og iðnaðarráðherra um framtíðarsýn ferðaþjónustunnar átti að skila tillögum í vor en samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu þá er von á tillögum á næstu dögum.

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …