Útlit fyrir metþátttöku í útboði á flugferðum hins opinbera

flugtak 860 a

Líklegt er að nokkur erlend flugfélög verði gjaldgeng í útboði á flugmiðakaupum stjórnarráðsins. Samkeppnin mun því ekki aðeins vera á milli Icelandair og WOW air. Líklegt er að nokkur erlend flugfélög verði gjaldgeng í útboði á flugmiðakaupum stjórnarráðsins. Samkeppnin mun því ekki aðeins vera á milli Icelandair og WOW air.
Innan skamms verður á ný leitað tilboða í kaup allra ráðuneyta á farmiðum líkt og Túristi greindi nýverið frá. Verður þetta fyrsta útboð hins opinbera á flugmiðakaupum í nærri fimm ár en síðast var tilboðum Icelandair og Iceland Express tekið. Síðarnefnda félagið hætti hins vegar starfsemi haustið 2012.

Hafa hug á að bjóða

Að þessu sinni er útlit fyrir að samkeppni um farmiðaviðskipti ríkisins verði mun harðari því forsvarsmenn þeirra erlendu flugfélaga sem hingað fljúga, allt árið um kring, segjast í samtölum við Túrista, hafa hug á því að skoða möguleika á að skila inn tilboðum. Icelandair og WOW air standa þó líklega best að vígi því félögin geta boðið upp á beint flug til mun fleiri staða og tíðari ferðir í flestum tilfellum.

Íslensku fyrirtækin ekki örugg með stóran skerf

Ennþá liggur hins vegar ekki fyrir hvaða skilyrði Ríkiskaup munu setja varðandi flugáætlanir tilboðsgjafa en í nýlegu útboði danska ríkissins á flugmiðum var gerð sú krafa að flugfélög byðu upp á alla vega þrjár brottfarir í viku, allt árið, til viðkomandi áfangastaðar. Danska ríkið bauð út nærri tvö hundruð flugleiðir og var samið við allt að þrjú félög á hverri leið. Verði íslenska útboðið sambærilegt er ljóst að Icelandair og WOW air munu sitja ein að fluginu vestur um haf en félög eins og British Airways og SAS gætu náð stórum hluta af ferðunum til áfangastaða sem ekki er flogið til beint frá Íslandi. Starfsmenn stjórnarráðsins yrðu þá að millilenda á Heathrow eða í Ósló á leið sín lengra út í heim. Ef krafa um ferðatíma verður ekki ströng gætu þessi tvö félög einnig veitt Icelandair og WOW air samkepnni um farmiðakaup stjórnarráðsins til borga sem aðeins íslensku félögin fljúga til beint frá Íslandi.

Vilja ekki vildarpunkta

Í viðtali við Túrista í vor sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, að það væri algjört grundvallaratriði að tekið yrði fyrir það að einstaka bjóðendur geti boðið starfsmönnum ríkisins sporslur fyrir að beina viðskiptum sínum til þeirra. „Það er í hæsta máta óeðlilegt að ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða sem skattgreiðendur hafa borgað fyrir,“ bætti Ólafur við. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum þá er gert ráð fyrir því í komandi útboði að óheimilt verði að bjóða hvata til ferða hjá ákveðnu flugfélagi og reynt verður að koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun einstaklinga.