Airbnb mun útbreiddara á Íslandi en í Skandinavíu

reykjavik vetur

Framboð á gistingu hér á landi á vegum Airbnb hefur meira en tvöfaldast síðastliðið ár og er hlutfallslega mun meira en hjá frændþjóðunum. Framboð á gistingu hér á landi á vegum Airbnb hefur meira en tvöfaldast síðastliðið ár og er hlutfallslega mun meira en hjá frændþjóðunum.
Í dag eru 3.547 íslenskir gistikostir á skrá hjá fyrirtækinu Airbnb sem gerir fólki kleift að leigja ferðamönnum herbergi eða íbúðir. Úrval af gistingu á vegum Airbnb hér á landi hefur ríflega tvöfaldast (120%) frá sama tíma í fyrra og hlutfallslega eru miklu fleiri íslenskar eignir en skandinavískar á skrá hjá Airbnb. Í Noregi eru gistikostirnir um 8 þúsund, í Svíþjóð eru þeir um tíu þúsund og 21 þúsund í Danmörku samkvæmt upplýsingum Túrista frá Airbnb.  
Miðað við íbúafjölda er útbreiðsla Airbnb því nærri þrefalt meiri hér á landi en í Danmörku og sjö sinnum meiri en í Noregi.

Hátt í þrefalt fleiri gestir

Fjöldi þeirra ferðamanna sem nýtir sér Airbnb hér á landi hefur aukist um 152 prósent frá því í fyrra en til samanburðar fjölgaði gistinóttum á íslenskum hótelum um 18 prósent fyrstu átta mánuðina í ár samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar. Vöxtur Airbnb er hins vegar ekki aðeins gífurlega hraður hér á landi því til að mynda bjóða sífellt fleiri Norðmenn, Svíar og Danir þar ferðamönnum gistingu. Í Noregi hefur fjöldi leiguauglýsinga rúmlega tvöfaldast undanfarið ár, líkt og hér á landi, en í Danmörku og Svíþjóð jókst framboðið um nærri áttatíu prósent. Fjöldi bókana á vegum Airbnb í öllum þessum löndum er að minnsta kosti tvöfalt meiri nú en í fyrra en mest er aukningin í Noregi eða 162 prósent.

Íslendingar ferðast oftar með Airbnb

Á sama tíma og sífellt fleiri erlendir túristar bóka gistingu hér á landi á vef Airbnb þá fjölgar líka þeim Íslendingum sem nýta þessa þjónustu í útlöndunum. Í ár hafa 87 prósent fleiri pantanir komið frá íslenskum ferðamönnum í gegnum vef Airbnb en í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Airbnb. Vefurinn er hins vegar í mestri sókn meðal Norðmanna því það sem af er ári hefur bókunum þaðan fjölgað um 118 prósent en aukningin meðal Svía nemur 99 prósentum og 91 prósenti hjá dönskum ferðamönnum. Vöxtur Airbnb meðal íslenskra túrista er því minni en meðal þeirra skandinavísku síðastliðið ár.