SAS setur pressu á íslensku flugfélögin hér heima og í Boston

sas 860 a

Stærsta flugfélag Norðurlanda ætlar að fljúga daglega hingað frá höfuðborg Danmerkur allt árið um kring og tekur á sama tíma slaginn við íslensku flugfélögin í Boston. Stærsta flugfélag Norðurlanda ætlar að fljúga daglega hingað frá höfuðborg Danmerkur allt árið um kring og tekur á sama tíma slaginn við íslensku flugfélögin í Boston.
Daglega er hægt að fljúga þrisvar til fimm sinnum á dag frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar en íslensku félögin tvö hafa setið ein að flugleiðinni um langt skeið. Nú ætla forsvarsmenn SAS hins vegar að blanda sér í baráttuna að fullum krafti því frá og með lokum mars mun félagið fljúga hingað daglega frá flugvellinum við Kastrup. Síðustu ár hefur SAS aðeins flugið hingað daglega frá Ósló. Umsvif SAS munu því tvöfaldast hér á landi á næsta ári.

Breytingar á samstarfi SAS og Icelandair 

Icelandair og SAS hafa um langt skeið unnið náið saman og farþegar Icelandair, á leið lengra út í heim, millilenda til að mynda oft í Kaupmannahöfn og halda þaðan áfram með SAS. Í svari til Túrista dregur hins vegar Trine Kromann-Mikkelsen, talskona SAS, ekki dul á að með beina fluginu hingað geti SAS nú boðið íslenskum farþegum áframhaldandi flug frá Kaupmannahöfn.  
Forsvarsmenn ætla sér hins vegar ekki aðeins að setja pressu á íslensku félögin í flugi til og frá Kaupmannahöfn því félagið ætlar einnig að hefja beint flug til Boston frá Kaupmannahöfn en Icelandair, og nú WOW air, hafa verið einu norrænu flugfélögin í Boston og hafa aukið umsvif sín þar jafnt og þétt síðustu ár.