Nú verður hægt að fljúga beint til Prag

czech airlines

Stærsta flugfélag Tékklands ætlar að hefja flug til Íslands næsta sumar. Mikill áhugi á Íslandsferðum meðal þarlendra ferðafrömuða. Stærsta flugfélag Tékklands ætlar að hefja flug til Íslands næsta sumar. Mikill áhugi á Íslandsferðum meðal þarlendra ferðafrömuða.
Allt frá falli járntjaldsins hefur Prag verið ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu. Íslenskir ferðamenn á leið þangað hafa þó í flestum tilfellum þurft að millilenda á leið sinni því framboð á beinu flugi til borgarinnar hefur nær takmarkast við óreglulegt leiguflug en Iceland Express bauð reyndar upp á vikulegar ferðir til Prag sumarið 2012. Nú ætla hins vegar forsvarsmenn Czech Airlines, stærsta flugfélags Tékklands, að bæta Íslandi við leiðakerfi sitt og verður jómfrúarferðin farin sextánda júní á næsta ári. Í boði verða tvær ferðir í viku fram í miðjan september og munu þotur Czech Airlines taka á loft frá Keflavíkurflugvelli skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudags og föstudags. Farþegar lenda því í Prag í morgunsárið.

Góðar undirtektir í Tékklandi

„Það er mjög mikill áhugi á Íslandi hér í Tékklandi og margar tékkneskar ferðaskrifstofur eru spenntar fyrir þessari nýju flugleið“, segir Daniel Šabík, talsmaður Czech Airlines, í viðtali við Túrista. Hann vonast líka til að margir Íslendingar nýti sér áætlunarferðir flugfélagsins því Tékkland hafi upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn. Aðspurður um fargjöldin segist Šabík ekki hafa upplýsingar um hvernig verðskráin verði en hann vonast til að sala á Íslandsfluginu hefjist fljótlega eftir helgi á heimasíðu Czech Airlines. Flogið verður á Airbus 319 vélum sem rúma 144 farþega.

Tékkar á landbyggðinni

Beint flug hingað frá Tékklandi eru sérstaklega góð tíðindi fyrir ferðaþjónustuna út á landi því líkt og kom fram í nýlegri úttekt Túrista þá eru Tékkar mun líklegri til að gista út á landsbyggðinni þegar þeir ferðast um Ísland en gengur og gerist. Þannig skiptast gistinætur tékkneskra túrista hér á landi nær jafnt á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar en almennt gista erlendir ferðamenn í nærri sjötíu prósent tilvika á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins Ísraelar eru líklegri til að velja frekar hótel á úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu en Tékkar.
SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ MEÐ Momondo Á FLUGI TIL PRAG