Framboð á flugi til Kanada margfaldast

toronto b

Næsta sumar verða í boði þrjátíu áætlunarferðir í viku til fimm kanadískra borga. Sendiherra Kanada á Íslandi fagnar þessum auknum samgöngum milli landanna tveggja. Næsta sumar verða í boði þrjátíu áætlunarferðir í viku til fimm kanadískra borga. Sendiherra Kanada á Íslandi fagnar þessum auknum samgöngum milli landanna tveggja. Stærsta flugfélagið í Kanada tekur hins vegar ekki stefnuna á Ísland.
Í dag tilkynntu forsvarsmenn WOW formlega að félagið myndi hefja áætlunarflug til Montreal og Toronto á næsta ári en fréttir af þessum áformum spurðust út í síðasta mánuði. Í boði verða fjórar ferðir í viku allt árið um kring til borganna tveggja en Icelandair hefur um árabil flogið til Toronto og mun fara í jómfrúarferð sína til Montreal í maí líkt og WOW.  

Fimm kanadískar borgir á dagskrá

Fyrir átta árum síðan hóf Icelandair á ný áætlunarflug til Kanada og þá aðeins til Halifax í Nova Scotia. Ári síðar fór félagið jómfrúarferð sína til Toronto, fjölmennustu borgar landins, en fleiri kanadískir áfangastaðir bættust ekki við leiðakerfi Icelandair næstu árin þar á eftir. Í nóvember árið 2013 var hömlum á flugi milli Íslands og Kanada hins vegar aflétt og strax í framhaldinu var boðið upp á vetrarflug til Toronto og vorið eftir bættist við áætlunarflug til Edmonton og Vancouver í vesturhluta Kanada. Í sumar hefur Icelandair samtals flogið 18 ferðir í viku til Kanada en nú þegar bæði félög bæta Montreal við leiðakerfi sitt og WOW fer einnig til Toronto verða ferðirnar alla vega þrjátíu í viku næsta sumar. Til samanburðar má nefna að sumarið 2013 flaug Icelandair sjö sinnum í viku til Kanada.

Ný tækifæri með bættum samgöngum

Stewart Wheeler, sendiherra Kanada, hér á landi fagnar þessari gífurlegu aukningu á beinu flugi milli Íslands og Kanada. „Með auknum samgöngum skapast kjörið tækifæri fyrir eflingu tengsla milli Kanadabúa og Íslendinga og opnar möguleika á nýjum tengingum og samstarfi milli fólks, fyrirtækja, háskóla og annara stofnana,“ segir Wheeler í svari til Túrista um þessa auknu áherslu íslensku flugfélaganna á áætlunarferðir til kanadískra borga.

WOW stórtækara í Montreal

Eins og áður segir þá munu bæði Icelandair og WOW air fara sínu fyrstu áætlunarferðir til Montreal í maí á næsta ári. Icelandair ætlar hins vegar aðeins að halda fluginu út fram á haustið á meðan WOW air mun starfrækja flugleiðina allt árið um kring. Forsvarsmenn Air Canada, stærsta flugfélags Kanada, áforma hins vegar ekki að etja kappi við íslensku félögin á sínum heimavelli. Í svari talsmanns Air Canada í Evrópu segir að flugfélagið fylgist stöðugt með eftirspurn á hverjum markaði fyrir sig og skoði möguleika á opnun nýrra flugleiða en ekkert þess háttar sé þó í bígerð á þessari stundu.