Eitt stærsta hótelfélag í heimi leitar áfram tækifæra á Íslandi

reykjavik vetur

Lengi vel var útlit fyrir að hótelið við Hörpu yrði hluti af W-hótelkeðjunni en svo varð ekki. Forsvarsmenn hótelkeðjunnar leita því nýrra tækifæra hér á landi. Lengi vel var útlit fyrir að hótelið við Hörpu yrði hluti af W-hótelkeðjunni en svo varð ekki. Forsvarsmenn hótelkeðjunnar leita því nýrra tækifæra hér á landi.
Í lok sumars var tilkynnt að fimm stjörnu hótelið sem reisa á við Hörpuna verður rekið undir merkjum Marriott Edition. Áður hafði komið fram í fjölmiðlum að fjárfestahópurinn sem stendur að verkefninu átti einnig í viðræðum við forsvarsmenn W-hótelanna. Sú hótelkeðja er í eigu fyrirtækisins Starwood sem er eitt stærsta hótelfélag í heimi en það á og rekur nokkrar alþjóðlegar hótelkeðjur, þar á meðal Sheraton og Westin. Þrátt fyrir að samningar hafi ekki náðst milli Starwood og aðstandenda byggingarinnar við Hörpu þá er ekki útilokað að þetta bandaríska fyrirtæki hasli sér völl á Íslandi í nánustu framtíð. „Við erum svo sannarlega áhugasöm um að finna tækifæri á íslenska markaðnum,“ segir Nicola McShane-Bau, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, aðspurð um hug fyrirtækisins á að hefja starfsemi hér á landi. „Starwood fylgist náið með þróuninni á helstu mörkuðum Evrópu og kannar möguleikana fyrir þau tíu vörumerki sem tilheyra fyrirtækinu. Þó við séum bjartsýn á að Ísland verði einn þeirra markaða sem við munum vaxa á í framtíðinni þá höfum við á þessari stundu engar nánari upplýsingar um næstu skref.“

Hröð uppbygging framundan

Nýting hótelherbergja í Reykjavík var 84 prósent á síðasta ári sem er með því mesta í Evrópu samkvæmt úttekt Arion banka. Nýtingin er há þrátt fyrir að framboð á gistirými í höfuðborginni hafi aukist umtalsvert síðustu misseri. Næstu árin mun hótelherbergjum í Reykjavík svo fjölga ennþá meira því nú er unnið að byggingu hótela á nokkrum stöðum í miðborginni og í vikunni voru kynnt áform um að reisa stærsta hótel landsins við Öskjuhlíð.