Heldur námskeið fyrir þá sem vilja spara sér gistinguna

ibudarskipti snaefridur

Snæfríður Ingadóttir er fróðleiksbrunnur þegar kemur að íbúðaskiptum.
Íbúðaskipti eru orðin hluti af lífstíl fjölmiðlakonunnar Snæfríðar Ingadóttur sem ferðast hefur vítt og breitt um heiminn án þess að borga krónu fyrir gistingu. Snæfríður heldur námskeið á Akureyri um þennan sívinsæla ferðamáta í byrjun nóvember en hér segir hún lesendum Túrista frá reynslu sinni af íbúðaskiptum og gefur nokkuð góð ráð.

Hvenær prófaðir þú fyrst íbúðaskipti?
Ég hef stundað íbúðaskipti í nærri 10 ár bæði innanlands og utan. Fyrst var þetta frekar óformlegt, var að skipta við íslenska námsmenn erlendis eða kunningja úti í heimi. Undanfarin ár hafa hinsvegar flest mín skipti verið í gegnum síðuna homeexchange.com og hefur hún reynst fjölskyldunni afar vel.

Fyrir utan sparnaðinn hver finnst þér þá vera helsti kosturinn við að ferðast á þennan hátt?
Upphaflega fórum við hjónin út í þetta vegna þess að við eigum þrjú börn og það er dýrt að kaupa flugmiða fyrir fimm. Það var því ágætt að sleppa við gistikostnaðinn. Síðan höfum við áttað okkur á því hvað það er í raun gaman að lána heimili annarra með öllu sem því fylgir; bókum í bókahillunum, framandi tónlist í spilaranum, mat í eldhússkápunum, tipsum um bestu kaffihúsin, verslanirnar, leynistaði o.s.frv. Maður setur sig í spor húseigandans með því að fara í sömu matvörubúðina og hann, á reiðhjólinu hans og kaupir jafnvel það sem hann er vanur að kaupa. Þetta er frábær leið til þess að kynnast menningunni viðkomandi lands almennilega. Við höfum líka stundum náð að hitta fólkið sem við höfum skipt á  húsnæði við og átt virkilega skemmtilegar og innihaldsríkar samræður sem hafa gefið okkur mikið.

Hvað hefur reynslan kennt þér á þessu sviði?
Reynslan hefur tvíeflt mig, ég vil helst ekki ferðast öðruvísi en með þessu móti. Ég reyni að skipta við fólk sem er á svipuðum stað og ég í lífinu, þá helst barnafjölskyldur. Góð samskipti fyrir skiptin eru lykilatriði fyrir vellukkuðum skiptum. Einu sinni skiptum við á húsnæði sem við héldum að væri þannig að við þyrftum ekki bíl þar sem myndirnar gáfu til kynna að stutt væri á ströndina. Annað kom á daginn, en okkur hafði hinsvegar ekki dottið í hug að spyrja út í það og vorum því að redda bílaleigubíl á síðustu stundu. Það skiptir sem sagt miklu máli að ræða vel við gestgjafana áður en lagt er í hann til þess að koma í veg fyrir misskilning. Eins skiptir máli að hlusta á heimamenn, þeir vita sínu viti. Ef Spánverji segir að það sé of kalt að dvelja í húsinu hans á veturna þá er það líklega þannig. Við höfum brennt okkur á þessu. Við héldum að það væri nú lítið mál fyrir okkur Íslendingana sem værum vön allskonar veðri að dvelja í spænskum fjallakofa yfir jól. Húsráðandanum leist ekki vel á hugmyndina en lét okkur húsið þó í té – og já það var mjög kalt og rakt. Sítrónurnar í garðinum björguðu okkur alveg en það var drukkið mikið af heitu sítrónute þau jólin…

Hvert hafið þið ferðast með þessum hætti?
Við höfum farið til Sardiníu, Kaupmannahafnar, Oslóar, New York, Gran Canary og Fuerteventura. Ég er meira að segja búin að ganga frá skiptum fyrir jólin 2016 en þá verðum við fjölskyldan á Tenerife.

Hver eru best lukkuðu íbúðaskiptin sem þú hefur gert og afhverju?
Ætli ég verði ekki að segja íbúðina sem við fengum í New York árið 2014. . Myndirnar af íbúðinni sögðu aðeins hálfa söguna. Það var því óvænt ánægja að gista í lúxusíbúð í Brooklyn innan um iðandi mannlíf og menningu.

En hefur einhvern tíma orðið fyrir vonbrigðum?
Einu sinni skiptum við á íbúð á Akureyri þegar við bjuggum sjálf í Reykjavík. Það var ekkert að íbúðinni í sjálfu sér, hún var mjög falleg með allskonar fallegum skrautmunum og dúkum á borðum. Við vorum hinsvegar ekki rétta fólkið fyrir þessa íbúð þar sem við vorum með smábarn og ég var hrædd um að eitthvað myndi skemmast. Við fórum því fyrr úr íbúðinni en áætlað var. Eftir þessa reynslu reyni ég bara að skipta við barnafjölskyldur sem eru með barnadót í stað kristalsvasa á sínu heimili eða þá á sumarhúsum sem eru yfirleitt með minna af persónulegum munum.

Þú ert að fara að halda námskeið í íbúðaskiptum, hvers vegna og hverju ertu að miðla þar?
Margir hafa leitað til mín eftir ráðum varðandi þennan ferðamáta, þannig að ég ákvað bara að deila því sem ég hef lært á þessum ferðalögum með formlegum hætti. Á námskeiðinu „Meiri upplifun, minni kostnaður“ tala ég t.d. um það hvernig maður fær þau skipti sem maður sækist eftir, hver sé fórnarkostnaðurinn við íbúðaskipti, hvenær er best að kaupa flugmiðann til að ná sem hagstæðustu verði og yfirhöfuð hvernig maður fer í frí erlendis með sem minnstum tilkostnaði. Nánari upplýsingar um námskeiðið má fá hér.

Finnur þú fyrir auknum áhuga Íslendinga á þessari tegund ferðalaga?
Já, klárlega en fólk hefur ekki bara áhuga á íbúðaskiptum heldur í raun á deilihagkerfinu í heild sinni. Það sem einkennir þetta fólk er að það hefur áhuga á að fá meiri upplifun út úr fríinu. Íbúðaskipti eru hinsvegar ekki fyrir alla. Að ná skiptum er tímafrekara heldur en að panta hótel, eins þarf að þrífa heimilið almennilega fyrir skipti og sumum finnst það hreinlega vera hræðileg tilhugsun að ókunnugt fólk handleiki þeirra dót.

Með hvaða vefsíðum mælir þú með að fólk noti til að skipuleggja íbúðaskipti?
Það eru mjög margar síður á netinu sem bjóða upp á íbúðaskipti. Ég hvet fólk til þess að skoða þessar síður vel áður en það velur því sumar síðurnar eru með meiri eignir í Bandaríkjunum, aðrar í Evrópu, fólk þarf að vita svolítið hvert það vill fara áður en það velur sér síður. Eins eru ársgjöldin mismunandi. Sjálf nota ég homeexchange.com en intervac.com hefur líka reynst mörgum Íslendingum vel. Svo er hægt að vera skráður á tvær síður til að eiga betri möguleika á góðum skiptum.

Einhver góð ráð til þeirra sem langar að prófa íbúðaskipti?
Fara af stað með opnum huga og ekki binda sig of mikið við ákveðnar staðsetningar, þú gætir fengið tilboð um skipti á stað sem þú vissir ekki einu sinni að væri til. Lagaðu til heima hjá þér áður en þú myndar húsnæðið og vertu óhræddur við að bjóða skipti að fyrrabragði, ekki bíða eftir að einhver sendi þér. Skráðu þig sem fyrst ef takmarkið er að ná skiptum næsta sumar því mjög margir ganga frá skiptum allt að ári fram í tímann.