Icelandair og WOW nær samstíga í Montreal

montreal stor

Bæði íslensku félögin ætla að hefja flug til höfuðborgar Quebec fylkis á næsta ári. Munurinn á fargjöldum félaganna er nánast enginn. Bæði íslensku félögin ætla að hefja flug til höfuðborgar hins frönskumælandi Quebec fylkis í Kanada á næsta ári. Munurinn á fargjöldum félaganna er nánast enginn í sumar.
Í maí sagði Túristi frá orðrómi þess efnis að forsvarsmenn Icelandair væru að leggja drög að áætlunarflugi til kanadísku borgarinnar Montreal. Í kjölfarið staðfestu stjórnendur Icelandair að þeir ættu í viðræðum við flugmálayfirvöld þar í borg og stuttu síðar hafði Mbl.is það eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, að félagið hans ætlaði einnig til Montreal. Í lok sumars hóf Icelandair svo sölu á sætum til Montrael en hjá WOW fóru miðarnir í sölu um síðustu mánaðarmót. Bæði félög ætla að bjóða upp á fjórar ferðir í viku, WOW allt árið um kring en Icelandair frá vori og fram á haust.

Aðeins 0,24% verðmunur

Þetta verður í fyrsta skipti sem hægt verður að fljúga reglulega milli Íslands og Montreal og bæði flugfélögin eru því að stíga sín fyrstu skref í frönskumælandi hluta Kanada. Það er því mjög áhugavert að sjá hvernig íslensku félögunum reiðir af á þessari flugleið og fargjöldin eru góð vísbending um gang mála. Þegar borin eru saman fargjöld félaganna til og frá Montreal, nú þegar rúmt hálft ár er í jómfrúarflugin, kemur í ljós að meðalfargjöldin næsta sumar eru nánast þau sömu samkvæmt athugun Túrista. Þeir sem fljúga báðar leiðir með WOW air til Montreal yfir sumarmánuðina þrjá og innrita eina tösku borga að jafnaði 74.101 kr. en hjá Icelandair er meðal farmiðaverðið 74.281 kr. Það munar því aðeins 0,24 prósentum á meðalfargjaldi félaganna í sumar en eins og gefur að skilja þá getur verðmunurinn milli einstakra dagsetninga verið töluvert meiri.
Þeir sem aðeins ferðast með léttan handfarangur komast báðar leiðir með WOW fyrir 64.095 krónur að jafnaði. Eins og sjá má á línuritunum hér fyrir neðan þá er ódýrast að fljúga til Montreal í júní en dýrast í júlí.

Mismunandi takmarkanir og aukagjöld

Í könnuninni var reiknað út meðalverð þeirra ríflega tvö hundruð flugferða sem Icelandair og WOW air bjóða upp á til og frá Montreal í júní, júlí og ágúst á næsta ári. Hjá Icelandair hefur dvalartími áhrif á fargjöldin og var reiknað með a.m.k. vikuferð á ódýrasta farrými, styttri ferðir kosta oftast nokkru meira. Hafa ber í huga að farþegar Icelandair mega innrita tvær töskur sér að kostnaðarlausu en farþegar WOW borga fyrir þá þjónustu. Hámarksþyngd handfarangurs hjá Icelandair er 10 kíló en hjá WOW þarf að borga sérstaklega fyrir handfarangur sem er þyngri en fimm kíló. Hluti af veitingunum um borð er innifalinn hjá Icelandair en ekki hjá WOW.

SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ ÁHÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM Í MONTREAL