Engin rök fyrir því að byggja gróðurhús á Keflavíkurflugvelli

fle 860

Bygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var mjög umdeild framkvæmd á sínum tíma og þingmennirnir Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur J. Sigfússon vildu fara allt aðra leið en meirihlutinn samþykkti að lokum.
Í vikunni kynntu forsvarsmenn Isavia tillögur að uppbyggingu Keflavíkurflugvallar fram til ársins 2040 og er reiknað með að verulegri stækkun flugvallarsvæðisins og fjölda nýbygginga. Enn á ný verður því byggt við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem tekin var í notkun fyrir 28 árum síðan. Sú framkvæmd hafði hins vegar mjög langan aðdraganda og var hún umdeild. Ekki síst fjármögnunin en þingmenn Alþýðubandalagsins vildu ekki leita til styrkja hjá Bandaríkjastjórn líkt og almennt var meirihluti fyrir. Um það sagði Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins og núverandi forseti lýðveldisins, árið 1979: „Ef þessi þjóð hefur ekki efni á að byggja flugstöð fyrir samgöngukerfi sitt við aðrar þjóðir hefur hún í raun og veru ekki efni á að vera sjálfstæð þjóð.“ Að lokum fór hins vegar svo að Bandaríkjamenn borguðu um helming byggingakostnaðarins og í staðinn átti bandaríski herinn, og á kannski enn, heimtingu á því að nota flugstöðina sem varasjúkraskýli ef á þarf að halda.

Tvöfalt stærra en stærsta gróðurhúsið

Fimm árum síðar lagði Ólafur Ragnar ásamt flokksbræðrum sínum Steingrími J. Sigfússyni og Skúla Alexanderssyni fram tillögu að breyttum áherslum stærð og útlit flugstöðvarbyggingarinnar. Steingrímur J. flutti tillöguna og í ræðu hans gagnrýnir hann mikla notkun á gleri í byggingunni: „Eins og menn vita er þar um að ræða mikinn kassa á tveimur hæðum, um 6000 fermetrar hvor, og inni í þeirri byggingu er mikið gróðurhús sem, eins og fram hefur komið nýlega í blöðum, mun vera tvöfalt stærra en stærsta gróðurhús á Íslandi, 38 þúsund rúmmetrar að stærð.” Í lok ræðunnar gagnrýndi Steingrímur á ný glernotkunina: „Í raun og veru sjást engin skynsamleg rök fyrir því að byggja þetta gróðurhús þarna suður á Keflavíkurflugvelli á einhverjum veðrasamasta stað landsins.“

Vildu byggja flugstöð sem auðvelt er að bæta við

Þingmennirnir þrír vildu einnig fylgja fordæmi nágrannaþjóðanna og bygga flugstöð í áföngum: „…teljum við eðlilegra að taka til fyrirmyndar byggingar eins og reistar hafa verið á undanförnum árum og áratugum í mörgum nágrannatöndum. Má þar nefna flugstöðvarnar í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London, Glasgow og Luxemburg. Þær fela í sér möguleika á áfangaskiptingu og hægt er þar að bæta við nýjum álmum eftir þörfum á hverjum tíma. Sú bygging sem nú er gerð tillaga um býður ekki upp á slíka möguleika. Hana verður að reisa alla í einu og gera fokhelda alla í einu án tillits til þess hver þörfin er fyrir bygginguna þegar í upphafi.” 

Sumum þykir kannski ósanngjarnt að rifja hér upp margra áratuga gamlar ræður og tillögur um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sérstaklega núna þegar umferð um Keflavíkurflugvöll er langt umfram það sem nokkur sá fyrir. En það má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að leysa húsnæðisvanda Keflavíkurflugvallar á einfaldari hátt ef flugstöðvarbyggingin hefði verið þannig úr garði gerð að auðvelt væri að byggja við hana líkt og Steingrímur J., Ólafur Ragnar og Skúli lögðu til á sínum tíma. Tillaga þeirra bar kannski vott um meiri fyrirhyggju en sú ákvörðun að byggja húsið eins og mannvirki sem aldrei myndi reynast of lítið.