Segir ástand ferðamannastaða verða að batna fyrir sumarið

erlendir ferdamenn

Ríflega sex hundruð þúsund ferðamenn munu heimsækja Ísland næsta sumar ef spár ganga eftir. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar trúir því og treystir að aðstaðan við vinsæla ferðamannastaði verði bætt fyrir næstu sumarvertíð. Ríflega sex hundruð þúsund ferðamenn munu heimsækja Ísland næsta sumar ef spár ganga eftir. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar trúir því og treystir að aðstaðan við vinsæla ferðamannastaði verði bætt fyrir næstu sumarvertíð.
Þrátt fyrir að sífellt fleiri útlendingar sæki Ísland heim utan háannatíma þá er það ennþá þannig að ríflega fjórir af hverjum tíu túristum dvelja á landinu í júní, júlí eða ágúst. Í sumar voru ferðamennirnir 507 þúsund talsins og fjölgaði þeim um hundrað þúsund frá því í fyrrasumar. Allt næsta ár má gera ráð fyrir að erlendu gestunum fjölgi um rúmlega fjórðung og þá stefnir í að um rúmlega 600 þúsund túristar komi hingað yfir sumarmánuðina þrjá. Til samanburðar má geta að þeir voru tæplega 302 þúsund talsins sumarið 2012. Fjöldi sumargesta hefur þá tvöfaldast á fjórum árum.

Ekki bara skortur á fjármagni

Þrátt fyrir þessa miklu viðbót er ekki gert ráð fyrir aukningu í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í nýjum fjárlögum og ástæðan er meðal annars sú að í sjóðnum eru ennþá ósóttir styrkir upp á um 1.200 milljónir króna samkvæmt vef atvinnuvegaráðuneytisins. Vegna þessa óttast flestir viðmælenda Túrista innan ferðageirans að ástandið á mörgum ferðamannastöðum verði ennþá verra á næsta ári en fréttir af aðstöðuleysi við vinsæla staði voru tíðar sl. sumar. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, er hins vegar vongóð um að þetta verði ekki raunin. „Við trúum því og treystum að ástandið muni batna, það verður að batna. Stundum er það ekki skortur á fjármagni heldur eru það aðrir þættir sem hafa tafið eins og skipulagsmál og þess háttar. Nú reynir á að allir leggist á eitt til að útfæra og koma framkvæmdum í gang eins og hægt. Það er þó ekki þannig að ástandið sé slæmt um allt land. Hitt er annað mál að á ákveðnum fjölsóttum ferðamannastöðum er ástandið ekki nægjanlega gott, en Ísland er ríkt af náttúruperlum og við getum gert mun betur í að dreifa ferðamönnum um landið okkar.” Helga bætir því við að þessi verkefni eru meðal þeirra sem verða á borði nýstofnaðrar Stjórnstöðvar ferðamála.