Áfram unnið að útboði á flugmiðum ráðuneytanna

flug danist soh

Ekki tókst að bjóða út farmiðakaup stjórnarráðsins í haust líkt og stefnt var að. Erlend flugfélög fylgjast með gangi mála og ferðaskrifstofur vilja hlut að kökunni. Ekki tókst að bjóða út farmiðakaup stjórnarráðsins í haust líkt og stefnt var að. Erlend flugfélög fylgjast með gangi mála og ferðaskrifstofur vilja hlut að kökunni.
Hátt í fimm ár eru liðin frá því að ríkið leitaði síðast tilboða í farseðla fyrir opinbera starfsmenn. Þá bárust aðeins tilboð frá Icelandair og Iceland Express og var þeim báðum tekið en síðarnefnda félagið hætti starfssemi stuttu síðar.
Í byrjun þessa árs kærðu forsvarsmenn WOW air stöðu þessara mála og í framhaldinu komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að kaup hins opinbera á flugmiðum væru það mikil að leita þyrfti tilboða í þau á nýjan leik. Líkt og Túristi greindi frá þá stóð til að kynna útboðið í haust en samkvæmt nýjum upplýsingum frá Ríkiskaupum þá er ennþá unnið að því að klára útboðsgögnin. Vonast er til að vinnunni ljúki fyrir áramót en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort útboðið verði kynnt með formlegum hætti eða aðeins auglýst.

Flugpunktar ekki leyfðir

Félag atvinnurekenda hefur lengi talað fyrir nýju útboði og fór sérfræðingur félagsins meðal annars með kærumálið fyrir hönd WOW Air í byrjun árs. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, hefur einnig lagt áherslu á að flugfélög megi ekki bjóða starfsmönnum ríkisins flugpunkta fyrir að beina viðskiptum sínum til þeirra. „Það er í hæsta máta óeðlilegt að ríkisstarfsmenn þiggi vildarpunkta til persónulegra nota vegna flugferða sem skattgreiðendur hafa borgað fyrir,“ sagði Ólafur í svari til Túrista í vor.
Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum er gert ráð fyrir því í komandi útboði að óheimilt verði að bjóða hvata til ferða hjá ákveðnu flugfélagi og reynt verður að koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun einstaklinga. 

Erlendu flugfélögin áhugasöm

Í dag bjóða mun fleiri flugfélög upp á reglulegar ferðir til og frá landinu en þegar síðasta útboð var haldið. Líkt og Túristi hefur greint frá þá hafa forsvarsmenn nokkurra erlendra flugfélaga hug á því að taka þátt í fyrirhuguðu útboði en ennþá liggur hins vegar ekki fyrir hvaða skilyrði Ríkiskaup munu setja varðandi flugáætlanir tilboðsgjafa. Í nýlegu útboði danska ríkissins á flugmiðum var gerð sú krafa að flugfélög byðu upp á alla vega þrjár brottfarir í viku, allt árið, á þeim flugleiðum sem boðnar voru út. Danska ríkið leitaði tilboða í flug á nærri tvö hundruð leiðum og var samið við allt að þrjú félög á hverri þeirra. Verði íslenska útboðið sambærilegt er ekki víst að Icelandair eða WOW air fá stóran skerf. Flugfélög eins og British Airways og SAS gætu til að mynda skákað íslensku flugfélögunum þegar kemur að flugi til Evrópu og ennþá austar. Íslensku félögin myndu þó sennilega sitja ein að fluginu til N-Ameríku því Delta býður ennþá aðeins upp á flug hingað frá Bandaríkjunum hluta úr ári. 

Verða að velja ódýrasta flugmiðann

Í fyrrnefndu útboði danska ríkisins er gerð krafa um að opinberir starfsmenn í Danmörku verði í öllum tilvikum að velja ódýrasta miðann sem býðst á hverri flugleið og mega þeir aðeins beina viðskiptum til þeirra flugfélaga sem samið var við. Öll kaup á farmiðum fara svo í gegnum ferðaskrifstofur sem fá greiddar þóknanir fyrir sína vinnu. Sá háttur hefur ekki verið hafður hér á landi en Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Íslands, segist vilja sjá álíka fyrirkomulag hér á landi. Hún segir þó einnig mikilvægt að þróa kerfið  á þann hátt að ferðaskrifstofur geti orðið virkari þátttakendur. „Það er mjög mikilvægt að breyta ferlinu eins og það er í dag því það er löngu úrelt.“