Vilja áframhaldandi samstarf þrátt fyrir aukna samkeppni

Í vor tvöfaldar skandinavíska flugfélagið SAS umsvif sín hér á landi og eykur samkeppnina við íslensku flugfélagin í Boston. Það mun samt ekki binda enda á lang samstarf SAS og Icelandair.

sas icelandair

Um áratuga skeið hafa Icelandair og SAS átt í nánu samstarfi um ferðir milli Norðurlanda. Áætlunarflug félaganna, á ákveðnum flugleiðum, eru til að mynda samkennd sem þýðir að flugnúmer SAS eru notuð við flug Icelandair og öfugt. SAS sem er stærsta flugfélag Norðurlanda hóf að fljúga beint til Íslands árið 1988 frá Kaupmannahöfn en hafði áður millilent hér í flugi sínu milli Danmerkur og Grænlands. SAS lagði hins vegar niður flugið hingað frá Kaupmannahöfn í kringum aldarmótin en hefur síðustu ár boðið upp reglulegar ferðir hingað til lands frá Ósló.

Herja á vígi hvors annars

Nýverið tilkynntu forsvarsmenn SAS hins vegar að frá og með mars næstkomandi gætu farþegar félagsins flogið beint hingað frá Kaupmannahöfn allt árið um kring. Á sama tíma ætlar SAS einnig að hefja áætlunarflug til Boston en sú borg hefur verið helsta vígi Icelandair vestanhafs. Tilkynning SAS um þessar nýju flugleiðir kom stuttu eftir að Icelandair hóf sölu á farmiðum til Chicago en sú borg hefur verið hluti að leiðakerfi SAS um langt skeið. Þrátt fyrir að samkeppni fyrirtækjanna tveggja aukist verulega í byrjun næsta árs þá vilja forsvarsmenn þeirra að halda samstarfinu áfram. Í viðtali við Túrista á mánudag sagði Simon Pauck Hansen, forstöðumaður hjá SAS, að það væri ekki á dagskrá félagsins að hætta samvinnunni við Icelandair enda hefði hún reynst SAS vel og það myndi koma sér á óvart ef stjórnendur Icelandair myndu slíta samstarfinu í ljósi aukinnar samkeppni. Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, segir breytingar á samvinnunni ekki á dagskrá. „Við erum í góðu samstarfi við SAS og gerum ráð fyrir að það muni halda áfram.”