Bjóða farþegum að breyta flugmiðum til Parísar

Paris Rob Potvin

Flugumferðin til Parísar hefur gengið nokkuð eðlilega fyrir sig í vikunni en sum flugfélög bjóða samt farþegum að gera breytingar á ferðaplönum sínum án aukakostnaðar. Flugumferðin til Parísar hefur gengið nokkuð eðlilega fyrir sig í vikunni en sum flugfélög bjóða samt farþegum að gera breytingar á ferðaplönum sínum án aukakostnaðar.
Í kjölfar hryðjuverkanna í París á föstudag lokaði Francois Hollande, forseti Frakklands, landamærum landsins en þrátt fyrir það hafa ekki orðið verulegar tafir á flugi til og frá borginni undanfarna daga.
Eftirlit á flugvöllum í Frakklandi hefur hins vegar verið aukið og það getur því tekið farþega lengri tíma en áður að komast í gegnum flughafnir.

Air France gengur lengst

Eitthvað hefur verið um að ferðamenn sem hafa átt pantað flug til Parísar hafi afbókað ferðir sínar og bjóða nú mörg flugfélög farþegum sínum að breyta farmiðum sér að kostnaðarlausu næstu daga. Það á til að mynda við um farþega Icelandair. „Við höfum boðið þeim sem áttu, og eiga, bókað flug til Parísar í kjölfar atburðanna þar að seinka brottför eða hætta við án endurgjalds,“ segir Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, í svari til Túrista. Er miðað við þá farþega félagsins sem eiga pantað flug til Parísar fyrir laugardaginn 21. nóvember. Skandinavíska flugfélagið SAS og hið norska Norwegian hafa boðið samskonar kjör en forráðamenn stærsta flugfélag Frakklands, Air France, bjóða öllum þeim sem eiga bókaða miða til Parísar fram til 15. desember að seinka ferð sinni án viðbótar kostnaðar. 
Auk Icelandair þá flýgur WOW air héðan til Parísar allt árið um kring en reglur félagsins, um breytingar á ferðaáætlun, eru ennþá óbreyttar. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, segir hins vegar að fylgst verði með framvindu mála.