Delta eykur samkeppnina við Icelandair

delta 2

Eitt stærsta flugfélag heims bætir við sinni annarri flugleið til Íslands. Tengiflug félagsins innan N-Ameríku kosta farþegana stundum ekkert aukalega. Eitt stærsta flugfélag heims bætir við sinni annarri flugleið til Íslands. Tengiflug félagsins innan N-Ameríku kosta farþegana stundum ekkert aukalega.
Delta Air Lines hefur ákveðið að bæta verulega við Íslandsflug sitt á næsta ári og bjóða uppá daglegar ferðir hingað frá Minneapolis allt sumarið. Forsvarsmenn bandaríska flugfélagsins höfðu reyndar áformað að starfrækja þessa flugleið síðastliðið sumar en fengu ekki hentuga afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli.

Bæta líka í New York flugið

Frá árinu 2011 hefur Delta boðið upp á áætlunarflug hingað frá JFK flugvelli í New York og nýverið var tilkynnt að á næsta ári myndi áætlunarflug félagsins, milli Íslands og New York, hefjast í febrúar og standa í sjö mánuði. Þremur mánuðum lengur en áður. Áður hafði Icelandair verið eina félagið sem bauð upp á flug héðan til New York og hefur einnig verið það eina sem hefur séð hag í flugi héðan til Minneapolis en á því verður nú einnig breyting. 

Bjóða upp á morgunflug vestur um haf

Vélar Delta munu því fljúga hingað til lands tvisvar sinnum á dag frá Minneapolis og New York næsta sumar. Ahygli vekur að brottförin héðan til Minneapolis er á dagskrá klukkan hálf níu að morgni sem er hálftíma áður en vélin frá borginni lendir við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ástæðan fyrir þessu eru sú að farþegaþotan sem kemur frá New York í morgunsárið flýgur til Minneapolis á meðan vélin sem kemur þaðan fer til New York. Vélarnar tvær skipta því um flugleið og farþegar á leið héðan til Minneapolis lenda þá þar klukkan tíu að morgni. Í dag fljúga langflestar vélar héðan til Bandaríkjanna seinnipartinn og lítið um morgunflug þangað. Til að mynda fljúga vélar Icelandair til Minneapolis korter í fimm seinnipartinn en íslenska félagið hefur boðið upp á áætlunarflug til Minneapolis um langt skeið.

Ódýrara að kaupa tengiflug en ekki

Ódýrustu farmiðarnir hjá Delta til Minneapolis og tilbaka kosta 77.575 krónur en farið þangað kostar að lágmarki 78.795 krónur með Icelandair samkvæmt lauslegri verðkönnun Túrista. Hins vegar borga farþegar Delta oft ekki neitt fyrir framhaldsflug frá Minneapolis eða New York með félaginu. Til að mynda kostar 77.305 krónur að fljúga með félaginu héðan til Chicago eða Denver með millilendingu í Minneapolis. Það kostar sem sagt 270 krónum minna að kaupa einnig tengiflugið í stað þess að fljúga aðeins til Minneapolis. Þess ber þó að geta að það getur verið umtalsverður verðmunur á milli daga hjá Delta líkt og hjá öðrum flugfélögum.
Máltíðir eru innifaldar í fargjaldi á öllum farrýmum í áætlunarflugi Delta og minnst ein 23 kg ferðataska svo og handfarangur. Afþreyingarkerfi stendur öllum farþegum til boða á flugleiðinni svo og wi-fi tenging við internetið samkvæmt því sem segir í tilkynningu.
SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM