easyJet dregur sig í hlé og WOW tekur við

easyjet wow

WOW air mun fljúga til bresku borgarinnar Bristol frá og með vorinu. Hingað til hefur easyJet boðið upp á ferðir þangað allt árið en félagið gerir breytingar á næsta ári. WOW air mun fljúga til bresku borgarinnar Bristol frá og með vorinu. Hingað til hefur easyJet boðið upp á ferðir þangað allt árið en félagið gerir breytingar á næsta ári.
Í byrjun sumars hefst áætlunarflug WOW air til Bristol eins og kynnt var í gær. Félagið áformar að fljúga milli Íslands og bresku borgarinnar þrisvar sinnum í viku allt árið um kring líkt og easyJet hefur gert í nærri tvö ár. Forsvarsmenn breska lággjaldaflugfélagsins hafa hins vegar ákveðið að gera hlé á fluginu milli Íslands og Bristol frá og með apríl nk. Eleanor Gillingham, upplýsingafulltrúi easyJet, segir að flugleiðin verði hins vegar aftur í boði næsta vetur. WOW air mun því aðeins sitja eitt að flugleiðinni næsta sumar.

Tíund fleiri ferðir

Áður en easyJet hóf að fljúga hingað frá Bristol í desember árið 2013 var ekkert áætlunarflug í boði héðan til borgarinnar. Til að byrja voru farnar tvær ferðir í viku en þeim fjölgaði svo um eina og fyrstu tíu mánuði þessa árs hafa vélar easyJet farið 103 ferðir frá Keflavíkurflugvelli til Bristol samkvæmt talningu Túrista. Það er aukning um tíund frá sama tíma í fyrra. 

Farþegafjöldinn stóð í stað í sumar

Farþegum á þessari flugleið fjölgaði hins vegar um fjórðung fyrstu átta mánuði ársins samkvæmt upplýsingum frá flugmálastofnun Bretlands en tölur fyrir september og október liggja ekki fyrir. Alls nýttu tæplega 26 þúsund farþegar sér áætlunarflugið á tímbilinu janúar til ágúst en hafa ber í huga að hver farþegi er talinn tvisvar, á leiðinni út og tilbaka. Það er því hægt að segja að um 13 þúsund einstaklingar hafi farið á milli Bristol og Keflavíkurflugvallar fyrstu átta mánuði ársins. Farþegaaukningin í ár átti sér hins vegar öll stað á fyrstu fjórum mánuðum ársins eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Síðastliðið sumar stóð farþegafjöldinn nærri því í stað og það kann að skýra ákvörðun stjórnenda easyJet að leggja niður flugleiðina frá vori og fram á haust. Forsvarsmenn WOW air fá því upp í hendurnar Íslandsferðamarkaðinn í Bristol og sitja að honum einir fram í lok október þegar easyJet byrjar áætlunarflug sitt þaðan til Keflavíkurflugvallar á ný. 

Ekki nóg að selja 8 af hverjum tíu sætum

Miðað við fjölda ferða og farþega þá hafa að jafnaði 151,4 farþegar verið um borð í hverri ferð easyJet milli Bristol og Íslands fyrstu átta mánuði ársins. Í Airbus þotum easyJet eru sæti fyrir annars vegar 156 farþega og hinsvegar 180. Um þessar mundir eru stærri vélarnar nýttar í flugið og sætanýtingin því um 83 prósent að jafnaði. Það virðist hins vegar ekki vera nóg til að halda flugleiðinni opinni allt árið en síðastliðna tólf mánuði hefur sætanýtingin hjá easyJet verið að jafnaði 91,5 prósent.

Ólíkir farþegahópar

Fyrir forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hér á landi kann það að vera áhyggjuefni að þriðja umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli leggi niður flugleið sem svo margir farþegar nýta sér. Líklega nær eingöngu erlendir ferðamenn því easyJet hefur ekki kynnt flugleiðir sínar hér á landi að nokkru ráði. Hvort WOW air nái að fylla skarð easyJet kemur í ljós á næsta ári en hluti af farþegum íslenska félagsins millilendir aðeins á Keflavíkurflugvelli á leið sinni yfir hafið á meðan þeir útlendingar sem fljúga hingað með easyJet dvelja hér á landi í einhvern tíma.