Fagna vesturstrandarflugi WOW air

sanfrancisco losangeles flug

Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar og flughafnanna við San Francisco og Los Angeles eru ánægðir með ákvörðun WOW air að hefja flug til vesturstrandar Bandaríkjanna. Í gær tilkynnti WOW air að félagið ætli hefja áætlunarflug til Los Angeles og San Francisco á næsta ári en beint flug héðan til þessara borga er ekki á boðstólum í dag. Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar og bandarísku flughafnanna eru lukkulegir með nýju flugleiðirnar.
„Við erum mjög ánægð með að viðræður okkar við WOW air hafi leitt til þess að þau hefji nú flug  til Los Angeles flugvallar. Þetta verður okkar fyrsta beina tenging við Ísland og WOW air er jafnframt annað evrópska lággjaldaflugfélagið sem hingað flýgur (Norwegian flýgur til Los Angeles, innsk. blm.),“ segir Nancy Suey Castles, talskona Los Angeles World Airports, í svari til Túrista. Castles segir Los Angeles vera mjög sterkan markað vegna allra þeirra flugleiða sem þar eru í boði á vegum fjöldamargra flugfélaga.

San Francisco á kortið á ný

Í maí árið 2005 fór Icelandair jómfrúarferð sína til San Francisco og bauð upp á flug þangað nokkur sumur. Forsvarsmenn WOW ætla sér hins vegar að fljúga þangað allt árið um kring og Doug Yakel, talsmaður San Francisco flugvallar, er ánægður með þá ákvörðun. „Við erum spennt fyrir því að taka á móti þessu nýja flugi WOW air milli San Francisco og Reykjavíkur. Þetta gerir viðskiptavinum okkar kleift að fljúga til nýs áfangastaðar á samkeppnishæfu verði.“

Stærri flugvélar henta Flugstöð Leifs Eiríkssonar vel

„Við hjá Isavia fögnum þessum nýju flugleiðum sem eru frábær viðbót í leiðakerfið á Keflavíkurflugvelli og mjög ánægjulegt að sjá aukna samkeppni og fleiri áfangastaði til Norður-Ameríku. Þarna er kominn nýr valkostur fyrir íbúa Kaliforníu á leið til Íslands í beinu flugi og áfram til Evrópu og þá er þetta ný leið fyrir Evrópubúa til að ferðast til Los Angeles og San Fransisco auk þess sem þetta bætir auðvitað tveimur frábærum áfangastöðum inn á kortið fyrir Íslendinga,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, aðspurður um þýðingu þess að WOW air hefji flug til vesturstrandar Bandaríkjanna. Hann bætir því við að það sé einnig ánægjulegt að WOW ætli að taka í notkun nýjar og stærri flugvélar því þær framkvæmdir sem nú standa yfir við Keflavíkurflugvöll geri m.a. ráð fyrir að farangursflokkunarsalurinn ráði við að afgreiða breiðþotur af þessari stærð. „Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar, sem við kynntum fyrr í haust, gerir ráð fyrir enn frekar stækkun í takt við farþegafjölgun og fellur hún vel að stórhuga áætlunum flugfélaganna sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli.“
SMELLTU TIL AÐ SKOÐA HANDVALIN HÓTEL Í LOS ANGELES OG SAN FRANCISCO