Haninn í Helsinki

Nýr matsölustaður þá sem vilja setjast niður með heimamönnum í höfuðborg Finnlands frá morgni og fram á nótt.

thecock helsinki

The Cock er ekki fyrsti veitingastaðurinn til að vera til húsa við Fabianinkatu 17, rétt við höfnina, í miðborg Helsinki. Af vinsældunum að dæma þá er hins vegar bið í að plássið losni á ný því The Cock hefur fengið fljúgandi start frá því hann opnaði í byrjun árs. Túristi heimsótti staðinn nýverið og ræddi við Ville Relander, annan af eigandum staðarins, um The Cock og veitingahúsalífið í höfuðborginni.

„Finnar eru ekki eins duglegir að sækja veitingahús og Skandinavar eru almennt. Við viljum hins vegar endilega fá fólk til að fara oftar út að borða og þá skiptir sköpum að gestirnir fái mikið fyrir peninginn. Við leggjum okkur því fram um að halda verðinu niðri en til að geta það þá verður staðurinn að vera vinsæll og matseðillinn má ekki vera flókinn. Við viljum líka búa til einfalt og huggulegt umhverfi. Fólk heldur að við höfum innréttað staðinn fyrir háar upphæðir en svo er ekki. Fólk sækir frekar í góða stemningu en dýrar innréttingar.”

Græða ekkert á morgunmatnum

The Cock opnar snemma dags og þar er boðið upp á mat frá morgni til kvölds og kokteila fram yfir miðnætti. Ennþá er langmest að gera á staðnum á kvöldin en Relander segist sjálfur vera mest hrifinn af morgnunum. „Kvöldin eru vinsælust en ég kann vel við morgunmatinn. Þá er líka rólegri stemning inni á staðnum. Morgunmaturinn er hins vegar meira eins og áhugamál hjá okkur því við græðum ekkert á honum en við viljum að húsið sé opið allan daginn þegar fólk vill koma inn og borða.”

Fjörugt veitingahúsalíf í Helsinki

The Cock er ekki eina nýjungin í flóru matsölustaða í finnska höfuðstaðnum. Þar líkt og annars staðar loka staðir og opna á víxl en Salender segir Finna forvitna og tilbúna til að gefa nýjum stöðum tækifæri. „Helsinkibúar eru líka aðeins duglegiri að fara út nú en áður og markaðurinn er því stærri og býður upp á marga möguleika. Lengi vel voru veitingastaðirnar frekar íhaldsamir en nú getum við leyft okkur meira.”

Köben og Stokkhólmur orðnar of dýrar

Verðlagið í Helsinki er aðeins lægra en í stærstu skandinavísku borgunum og Relander segist finna fyrir því þegar hann heimsækir nágrannalöndin. „Ég elska Kaupmannahöfn og Stokkhólm en þær borgir eru orðnar svo dýrar að þær eru ekki eins skemmtilegar lengur. Í Helsinki geturðu ennþá notið lífsins fyrir mun minna en í þessum borgum.”
The Cock er opinn alla daga virka daga frá kl. 7:30 en opnar í hádeginu á laugardögum.
Finnair og Icelandair býður upp á flug til Helsinki allt árið um kring.
TENGDAR GREINAR: VEGVÍSIR FYRIR HELSINKI