Jólaferðir til Kanarí og Tenerife nær uppseldar

kanari strond

Það selst alla jafna upp í allar ferðir til spænska eyjaklasans fyrir jól og á því verður ekki breyting í ár. Það selst alla jafna upp í allar ferðir til spænska eyjaklasans fyrir jól og á því verður ekki breyting í ár.
Nær uppselt er í þær átta brottfarir sem í boði eru til Kanarí og Tenerife  fyrir hátíðirnar samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofunum. Tæplega fimmtán hundruð Íslendingar munu því fljúga til spænsku eyjanna rétt fyrir jól. Uppbókað var í hluta  jólaferðanna strax í haust en ennþá eru nokkur sæti laus í aðrar brottfarir. Jólareisur Ferðaskrifstofu Íslands, Heimsferða og Vita til Kanarí og Tenerife seljast alla jafna upp ár hvert. 

200 fleiri til Tenerife

Fjöldi þeirra Íslendinga sem heldur til Las Palmas á Kanarí er álíka og um síðustu jól eða rúmlega fimm hundrað talsins. Hins vegar fjölgar Íslendingum á Tenerife því með tilkomu áætlunarflugs WOW air þangað er hægt að fljúga með 200 fleiri farþega til eyjunnar í hverri viku en áður. Að sögn Þórs Bæring hjá Gaman ferðum, dótturfélagi WOW air, seldust síðustu jólaferðir ferðaskrifstofunar til Tenerife upp í október og þessi viðbót frá WOW air hefur því ekki komið niður á sölu hjá hinum ferðaskrifstofunum. Í heildina fljúga því um 900 Íslendingar til Tenerife rétt fyrir jól.

Óvissa á markaðnum

Nýverið tilkynntu forsvarsmenn WOW air að þeir myndu bæta við ferðum til Tenerife eftir áramót og auk þess hefja áætlunarflug til Kanarí. Þar með tvöfaldast framboð á ferðum til eyjanna og hægt verður að ferja um 1300 Íslendinga þangað í hverri viku. Heimildarmenn Túrista eru sammála um að ólíklega sé markaður hér á landi fyrir allar þessar ferðir og benda á flugvélarnar sem þangað fljúga eru nær eingöngu skipaðar íslenskum ferðalöngum þar sem hingað til hefur eftirspurn eftir Íslandsferðum meðal íbúa Kanaríeyja ekki verið nein.

Skandinavar fjölmenna einnig

Íslendingar eru ekki einir um að fjölmenna til Kanarí yfir vetrartímann og ótryggt stjórnmálaástand í Egyptalandi hefur orðið til þess að eftirspurn eftir Kanaríferðum hefur stóraukist hjá frændþjóðum okkar síðustu ár. Um síðustu jól voru fréttir af skorti á gistirými á eyjunum yfir hátíðirnar og voru danskir ferðalangar varaðir við að kaupa flugmiða þangað áður en þeir tryggðu sér gistingu. Samskonar ástand gæti skapast þar á ný á næstunni þar sem ástandið í Egyptalandi og N-Afríku, til dæmis Túnis, þykir ekki nógu traust fyrir erlenda ferðamenn.
GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM