Bjóða óvænt upp á hræódýr skíðaflug í Alpana

skidi sviss t

Flugmiðar til Genfar í febrúar og mars á 5 til 8 þúsund krónur. Forsvarsmenn easyJet höfðu tilkynnt að vélar félagsins myndu ekki fljúga milli Íslands og Sviss í vetur nema að litlu leyti. Á því hefur orðið skyndileg breyting sem kemur íslensku skíðaáhugafólki vel.
Síðastliðinn vetur bauð easyJet upp á beint flug hingað frá Basel og Genf og var það í fyrsta skipti sem flogið var milli Íslands og Sviss á þeim tíma árs. Í kjölfarið þrefaldaðist fjöldi svissneskra túrista hér á landi yfir vetrarmánuðina en Svisslendingar eru sá hópur ferðamanna sem eyðir mestu hér á landi þegar litið er til kreditkortaveltu. Íslandsflugið frá Sviss gekk hins vegar ekki sem skyldi og í lok síðasta mánaðar gerði easyJet hlé á fluginu og var stefnan að bjóða á ný upp á áætlurnarferðir hingað frá Basel í febrúar en flugleiðin frá Genf átti að vera í dvala fram á sumarbyrjun.

Farið á 5 til 8 þúsund

Sú breyting kom sér illa fyrir þá íslensku skíðaáhugamenn sem vildu komast á skíðasvæðin sem liggja í næsta nágrenni við Genfarvatn en þangað er ekki flogið frá Íslandi um þessar mundir. Nú hafa forsvarsmenn easyJet í Sviss hins vegar ákveðið að gefa vetrarfluginu annan séns, alla vega að hluta til, því nú má finna farmiða milli Íslands og Genfar frá 22. febrúar á heimasíðu easyJet. Félagið mun fljúga tvisvar í viku og samkvæmt athugun Túrista þá kostar farið, aðra leiðina, á bilinu 5 til 8 þúsund krónur til loka mars. Hægt er að fljúga báðar leiðir á rúmar tólf þúsund krónur en það er það sama og easyJet rukkar fyrir innritun á skíðabúnaði og snjóbrettum. 

Úrval skíðasvæða í grenndinni

Frá flugvellinum í Genf er hægt að ná lestum í átt að skíðasvæðum í svissnesku, frönsku og jafnvel ítölsku ölpunum. Þeir sem vilja heldur leigja bíl í Genf ættu að hafa í huga að bílarnir í franska hluta flugstöðvarinnar eru ekki alltaf eins vel búnir til vetraraksturs og bílarnir í svissneska hlutanum.
SMELLTU HÉR TIL AÐ BERA SAMAN VERÐ Á SKÍÐAHÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM