Skítugustu blettirnir í farþegarýminu

Þær eru ekki upplífgandi niðurstöður nýrrar rannsóknar á hreinlætinu í farþegarými flugvéla. Snyrtipinnar hugsa sig alla vega tvisvar um áður en þeir setja matinn á borðið.

flugvel um bord chris brignola

Það kemur líklega ekki mörgum á óvart að sýklaflóran á salernum er oft blómleg og kamranir í farþegarýmum flugvéla eru þar engin undantekning. Hins vegar kemur það ábyggilega flatt upp á marga að heyra að átta sinnum fleiri bakteríur finnist á borðunum í farþegarýminu en til að mynda á handfanginu sem er notað til að sturta niður í klósettskálina. Og reyndar er það svo að enginn annar flötur í flugvélunum er eins skítugur og matarborðin sjálf samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar á vegum bandarísku ferðasíðunnar Travelmath.com. Sýklafræðingur á vegum fyrirtækisins tók 26 sýni í fjórum flugvélum og niðurstöðurnar þykja það sláandi að helstu ferðarit heims hafa gert þeim skil. Hreinlæti nokkura flughafna vestanhafs var einnig kannað og þar voru það drykkjarhanarnir sem komu verst út en þar á eftir lásar á klósetthurðum.
Í rannsókninni var mælieiningin CFU (Colony Forming Units) notuð en hún segir til um hversu margar bakteríur geta fjölgað sér á hverjum fersentimetra. Eins og sjá má hér fyrir neðan þá er meðalfjöldi baktería á hverjum stað mjög mismunandi.

Skítugustu staðirnir í flugvélum og á flugvöllum:
Sætisborð flugvéla: 13.903 CFU per fersentimetra
Vatnshanar í flugstöðvum: 8.000 CFU per fersentimetra
Hnappar til að kveikja á blæstri fyrir ofan sæti: 1838 CFU per fersentimetra
Handföng á klósettskálum: 1709 CFU per fersentimetra
Sætisbelti: 1483 CFU per fersentimetra
Lásar á klósettum: 451 CFU per fersentimetra

Til samanburðar má geta að á klósettsetu inni á heimili finnast um 1100 CFU per sentimetra og 174 CFU á hefðbundnum snjallsíma.
Það er spurning hvort þessar niðurstöður dragi úr áhuga farþega á veitingunum um borð eða hvort það verði algengara fólk taki með sér hreingerningavökva um borð en þá auðvitað aðeins í flösku sem rúmar að mesta lagi 100 ml. En eins og sjá má á þessari myndaseríu þá ganga sumir farþegar mjög illa um og því kannski ekki skrítið að stundum sé magn sýkla ótrúlega hátt í kringum okkur þegar við fljúgum milli staða.