Þriðjungi framkvæmda við ferðamannastaði er lokið

skogafoss jeremy goldberg

Síðustu fjögur ár hafa 448 verkefni fengið vilyrði fyrir styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en 299 þeirra eru ennþá í vinnslu. Umfang og skipulagsmál skýra að hluta til þennan drátt á framkvæmdum. Síðustu fjögur ár hafa 448 verkefni fengið vilyrði fyrir styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en 299 þeirra eru ennþá í vinnslu. Umfang og skipulagsmál skýra að hluta til þennan drátt á framkvæmdum.
Ósóttir styrkir hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nema í dag um 963 milljónum króna og er sú upphæð eyrnamerkt 299 verkefnum sem ennþá hefur ekki verið lokið við. Ríflega helmingur þessarar upphæðar er vegna styrkja sem veittir voru í febrúar og maí síðastliðnum og því skammur tími liðinn frá úthlutuninni. Hins vegar á ennþá eftir að leggja lokahönd á um helming þeirra verka sem fengu vilyrði fyrir fjármagni úr sjóðnum á árunum 2012 til 2014.

2,2 milljarðar

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða var stofnaður árið 2011 og hlutverk hans er að stuðla að
uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða sem eru í eigu ríkisins eða umsjón þess samkvæmt því sem segir í lögum um sjóðinn. Fyrst var veitt úr sjóðnum í ársbyrjun 2012 en síðustu þrjú ár hafa farið fram tvær til þrjár úthlutanir á ári. Samtals nema styrkirnir rúmum 2,2 milljörðum en eins og áður segir liggja ennþá 962 milljónir í sjóðnum eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Mótframlög hugsanlega lækkuð

Það er Ferðamálastofa sem sér um rekstur sjóðsins og að sögn Arnar Þórs Halldórssonar, umhverfisstjóra Ferðamálastofu, þá er eðli og umfang verkefna megin ástæða þess að hluti þeirra hefur ekki klárast. Framkvæmdatími sumra þeirra er til að mynda langur. Önnur skýring er sú að styrkir úr sjóðnum mega í mesta lagi standa undir helmingi af kostnaðaráætlun hvers verkefnis og því þurfa styrkþegar sjálfir oft að brúa stórt bil og það getur reynst erfitt að fjármagna þann hluta. Að sögn Arnar hafa verið uppi hugmyndir um að breyta úthlutunarreglum í þá veru að styrkir verði veittir til fleiri ára og að krafa um mótframlög verði lækkuð. Í sumum tilvikum eru það svo skipulagsmál sem skýra tafir á framkvæmdum.