WOW til Los Angeles og San Francisco

Forsvarsmenn WOW air láta sér ekki nægja að tvöfalda umsvif sín í flugi til N-Ameríku á næsta ári því í dag var tilkynnt um nýjar flugleiðir til Los Angeles og San Francisco.

Í vor fór WOW air jómfrúarferð sín til Bandaríkjanna og hefur félagið síðan þá boðið upp á reglulegar ferðir til Logan flugvallar við Boston og Baltimore/Washington flugvöll við höfuðborg Bandaríkjanna. Nýlega hófst svo sala á farmiðum í áætlunarflug félagsins til Montreal og Toronto í Kanada sem byrjar í maí nk. Forsvarsmenn flugfélagsins láta ekki þar við sitja því í dag tilkynntu þeir að frá og með næsta sumri yrðu borgirnar Los Angeles og San Franscico, á vesturströnd Bandaríkjanna, hluti að leiðakerfi WOW air. Ekki kemur fram í tilkynningu hvenær fyrstu ferðirnar verða farnar en báðar flugleiðirnar verða starfræktar allt árið um kring.

Mjög há sætanýting

Aldrei áður hefur verið boðið upp á áætlunarflug héðan til Los Angeles en Icelandair spreytti sig tímabundið á flugi til San Francisco yfir aðalferðamannamánuðina á árunum fyrir hrun. Í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2009 sagði Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, að samkeppnin í flugi til San Francisco hafi verið hörð og erfitt hafi reynst að ná góðri sætanýtingu. Núna er markaðurinn fyrir flug til Íslands og milli Evrópu og N-Ameríku hins vegar annar og í tilkynningu frá WOW air er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW, að sætanýting í flugi félagsins til Bandaríkjanna hafi verið yfir 90 prósent í ár.

„Það liggur því beinast við að bæta við Los Angeles og San Fransisco sem eru stórkostlegar borgir í Kaliforníu og styrkja enn frekar leiðarkerfi okkar. Ljóst er að það er mikil þörf og eftirspurn eftir góðu lággjaldaflugfélagi sem flýgur yfir Atlantshafið. Við höfum nú þegar lækkað verð um tugi prósenta og munum að sjálfsögðu halda því áfram. Við hlökkum til að bjóða upp á þessa tvo áfangastaði á vesturströnd Bandaríkjanna á frábærum verðum. Með þessari aukningu mun WOW air meira en tvöfalda sætaframboð sitt á næsta ári frá 900 þúsund sætum í ár í tæplega 2 milljónir sæta á næsta ári.“

Þrjár nýjar Airbus A330-300 breiðþotur verða notaðar í flug WOW air til vesturstrandar Bandaríkjanna og verða þetta stærstu þotur sem flogið hefur verið í áætlunarflugi til og frá Íslandi að því kemur fram í tilkynningu frá WOW air.