Samgleðst Íslendingum með flugið til Nice

nice 2

Forsvarsmenn ferðamála í Frakklandi fagna nýrri flugleið WOW air til landsins og segja hana opna nýja möguleika Forsvarsmenn ferðamála í Frakklandi fagna nýrri flugleið WOW air til landsins og segja hana opna nýja möguleika.
Í vikunni hóf WOW air sölu á farmiðum til Nice í Frakklandi og verður borgin þriðji áfangastaður flugfélagsins þar í landi. Í dag flýgur félagið til höfuðborgar landsins allt árið um kring og til Lyon yfir sumarmánuðina en til samanburðar er París eina franska borgin í leiðakerfi Icelandair.

Opnar marga möguleika

JómfrúarferðWOW air til Nice verður farin 2. júní og verða brottfarir alla fimmtudaga og sunnudaga fram í miðjan september.
Þetta verður í fyrsta skipti sem farþegar hér á landi geta flogið beint til flugvallar á frönsku Rivíerunni og Benoit Chollet, svæðisstjóri ferðamálaráðs Frakklands á Norðurlöndunum, fagnar því. „Ég er mjög ánægður með þessa nýjung fyrir hönd íslenskra ferðamanna. Flugið til Nice auðveldar Íslendingum ekki aðeins aðgengið að Rivíerunni heldur einnig Ölpunum og svo eru ferjusiglingar til Korsíku tíðar frá Nice. Þaðan er líka stutt í hina fallegu náttúru í Provence héraði,” segir Chollet í samtali við Túrista. „Þar sem flogið verður tvisvar í viku gefst bæði tækifæri til að fara í stutta heimsókn til Nice og eins að nýta flugið til að fara í lengri reisu um svæðin í kring.”

EM í Nice

Nice er ein af þeim borgum þar sem Evrópumótið í knattspyrnu fer fram en síðar í þessum mánuði kemur í ljós í hvaða riðli íslenska liðið verður og hvar leikir þess verða spilaðir. Samkvæmt tilkynningu WOW air þá er nú þegar um 3000 manns á biðlista eftir pakkaferðurm Gaman ferða, dótturfélags WOW, á EM.
Í hittifyrra spáði Túristi að fimm borgir myndu bætast við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar á næstu misserum og með Nice-flugi WOW þá eru fjórar af borgunum fimm komnar á dagskrá flugfélaganna hér á landi. Ennþá hefur þó enginn tilkynnt um flug til Toskana héraðs á Ítalíu en þar eru flugvellirnir í Písa og Flórens stærstir.
SMELLTU TIL AÐ VERÐSAMANBURÐ Á GISTINGU OG BÍLALEIGUBÍLUM Í NICE OG HÉR FYRIR SÉRVALIN HÓTEL Í FRÖNSKU RIVÍERUNNI